Öll knattspyrnufélögin í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, styðja tillögu starfshóps KSÍ um breytt fyrirkomulag á deildinni. Tillagan var lögð fram á 75. ársþingi Knattspyrnusambands Íslands en fékk þar ekki nægilegan stuðning aðildarfélaganna.
Tillagan sneri að því að fjölga leikjum í efstu deild með því að hafa áfram 12 lið í úrvalsdeild en skipta henni í tvennt eftir hinar venjulegu 22 umferðir. Hvert lið fengi þá fimm aukaleiki; efstu sex liðin myndu mætast innbyrðis í úrslitakeppni og neðstu sex sömuleiðis.
Alls greiddu 124 atkvæði um tillöguna á ársþinginu. Með tillögunni voru 68 en á móti 56. Tillagan fékk því um 54% stuðning og var felld en til þess að breyta lögum KSÍ þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Nú hafa formenn allra tólf úrvalsdeildarliðanna sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir kveðjast styðja þessa tillögu. Segir þar að forráðamenn félaganna hafa fundað um málefnið og að algjör samstaða sé um að láta þetta fyrirkomulag verða að veruleika.
Yfirlýsing um samstöðu félaga í efstu deild karla í knattspyrnu.
Í ljósi umræðu í knattspyrnuhreyfingunni um stækkun Íslandsmóts efstu deildar karla í kjölfar Ársþings KSÍ vilja félög efstu deildar koma eftirfarandi á framfæri:
Á 75. Ársþingi KSÍ var lögð fram tillaga starfshóps um keppnisfyrirkomulag efstu deildar karla. Fól það fyrirkomulag í sér 12 liða deild þar sem leikið er heima og að heiman líkt og nú er ásamt úrslitakeppni. Í úrslitakeppninni myndi efri hluti deildarinnar leika hvert við annað og sama fyrirkomulag í neðri hluta deildarinnar. Með þessu móti skapast mikil keppni allt frá neðri hluta deildarinnar upp í titil- og Evrópubaráttu. Öll lið munu kappkosta að vera í efri hluta deildarinnar áður en úrslitakeppni hefst.
Úrslitakeppni mótsins er form með hæfilegri fjölgun leikja sem gefur ýmis markaðsleg tækifæri m.a. í sölu sjónvarps-og markaðsréttinda. Markmiðið með fyrirhuguðum breytingum eru til þess fallið að ná viðspyrnu á stöðu deildarinnar í alþjóðlegum samanburði þegar horft er til styrkleikalista UEFA og að auka gæði og samkeppnishæfni íslenskrar knattspyrnu og leikmanna sem leika á Íslandi.
Forráðamenn félaga í efstu deild karla hafa fundað um þetta málefni og niðurstaðan er algjör samstaða um að láta breytt fyrirkomulag verða að veruleika a.m.k. tímabundið.
Með undirritun þessarar yfirlýsingar lýsa formenn stjórna viðkomandi félaga efstu deildar yfir stuðningi við áðurnefnda tillögu og heita því að styðja nauðsynlega breytingu á lögum KSÍ á næsta ársþingi KSÍ 2022 með það fyrir augum að keppnisfyrirkomulagið taki gildi sama ár.