Smáatriði sem verða að vera í lagi

Alex Þór Hauksson í baráttunni í leiknum í dag.
Alex Þór Hauksson í baráttunni í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Alex Þór Hauksson, miðjumaður íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu, sagði smáatriði sem verði hreinlega að vera í lagi hafa farið illa með liðið í 1:4 tapinu gegn Rússlandi í fyrsta leik þess í C-riðli úrslitakeppni Evrópumótsins í Györ í Ungverjalandi.

„Það er virkilega gaman að spila á þessu sviði og gaman að máta sig við þessa bestu leikmenn Evrópu. En í leiknum í dag kemur slæmur kafli þar sem mikið af litlum smáatriðum sem verða að vera í lagi á svona stóru sviði fara illa með okkur. Það var þó jákvætt að við komum saman og áttum mun betri síðari hálfleik og það er eitthvað sem við munum byggja á í næstu leikjum,“ sagði Alex Þór á Teams-fjarfundi með blaðamönnum eftir leik.

Aðspurður hvort eitthvað stress hafi verið íslenska liðinu í byrjun leiks sagði hann: „Ég myndi ekki segja stress, það var bara góður gír, en vissulega komu feilsendingar hér og þar. Kannski var þetta blanda af vellinum, smá stressi og háu tempói.“

Eftir að hafa haldið Rússum í skefjum fyrsta hálftímann brutu þeir ísinn og skoruðu þrjú mörk á stundarfjórðungskafla áður en flautað var til leikhlés. Fannst Alex Þór eitthvað gerast eftir fyrsta markið?

„Nei við höfum áður lent í þessari stöðu og erum þannig karakterar að vinnum okkur vanalega út úr henni. Hins vegar voru Rússar mjög góðir í að finna millisvæðin sem við hefðum átt að loka betur. Þetta var smá ólíkt okkur því við erum venjulega góðir í að loka þessum svæðum.“

Alex Þór sagði alla í liðinu vitanlega svekkta með tapið en að þeir séu þó áfjáðir í að laga það sem aflaga fór í dag. „Það er auðvitað virkilega svekkjandi að tapa, hundfúlt. Við erum ekki í þessu til þess að tapa og við ætluðum okkur sigur. Við verðum að setja þetta í reynslubankann.

En það er mikil samstaða í hópnum og strax farið að leita lausna varðandi það hvað sé hægt að gera til þess að vera betri á morgun og hinn. Við verðum að rýna í það sem betur má fara og það eru allir sammála um það að við getum stigið upp þó svo að við höfum lent á hindrun í dag. Við þurfum bara að fara í stríð gegn Dönum,“ sagði hann að lokum, en íslenska liðið mætir því danska á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert