Þér er refsað ef þú ert óöruggur

Arnar Þór Viðarsson í Duisburg í kvöld.
Arnar Þór Viðarsson í Duisburg í kvöld. AFP

„Þetta var leiðinlegt en ekki erfitt fyrir mig. Þetta var fyrst og fremst leiðinlegt fyrir strákana eftir góðan undirbúning,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari eftir 0:3-tap fyrir Þjóðverjum í undankeppni HM karla í fótbolta í kvöld. 

Þýskaland var komið í 2:0 strax á 7. mínútu og átti Ísland ekki mikla möguleika eftir það. „Við vissum að við værum að fara að spila við frábært lið með frábærum leikmönnum. Leikplanið fór í vaskinn strax á 2. mínútu. Það þarf mikla karaktera til að standa í lappirnar og halda áfram eftir að þeir skora annað markið.“

Íslenska liðið lék betur í seinni hálfleik og hefðu með smá heppni getað minnkað muninn í 2:1, en þess í stað skoraði Þýskaland þriðja markið. 

„Ég er mjög ánægður með það við komumst í hærri pressu í seinni hálfleik. Við töluðum um að loka betur hægra megin. Við vorum manni færri hægra megin þegar þeir náðu að skipta hratt frá hægri til vinstri. Við fundum lausnina saman að því í hálfleik. Við náðum að þrýsta andstæðingnum í það að gefa meira til hliðar og við losuðum pressuna. Við töpuðum boltanum mjög fljótt í fyrri hálfleik en gerðum betur í seinni,“ sagði Arnar. 

Ísland mætir Armeníu ytra á sunnudaginn kemur. „Það sem við gerum núna er að greina leikinn og okkar frammistöðu. Við finnum lausnir fyrir næsta leik. Við spilum sem betur fer ekki á útivöllum á móti Þjóðverjum í hverjum leik. Þetta verður ekki auðvelt á móti Armeníu. Þeir hafa verið sterkir á heimavelli en við getum byggt á seinni hálfleiknum.“

Landsliðsþjálfarinn á von á að Jóhann Berg Guðmundsson geti leikið með liðinu gegn Armeníu á sunnudag. „Jói æfði vel í gær og tók góða æfingu með Birki í morgun. Það lítur vel út með Jóa fyrir Armeníuleikinn. Ég vona að sjálfsögðu að Jói verði klár til að byrja leikinn á móti Armeníu,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert