„Við ætluðum að reyna að sækja eitthvað úr þessum leik og við höfðum trú á að við gætum það en við vissum að þetta væri erfiðasti leikurinn í riðlinum. Við þurfum að læra af þessum leik og horfa fram á veginn,“ sagði landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson á blaðamannafundi eftir 0:3-tap fyrir Þýskalandi í undankeppni HM 2022.
Leikurinn var sá fyrsti í undankeppninni og sá fyrsti undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen.
„Þeir hafa komið vel inn í þetta og okkur líst vel á þetta verkefni. Við munum klárlega verða betri. Það var margt jákvætt sem við tökum með okkur. Þetta var fyrsti leikurinn og það eru tveir leikir framundan sem við verðum að vera klárir í,“ sagði Arnór.
Hann ber Lars Lagerbäck vel söguna en sá sænski kom inn í þjálfarateymið á dögunum.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn með Lars. Maður sér strax reynsluna sem hann býr yfir og þekkingu sem hann hefur, það hjálpar. Hann veit hvað þarf til að ná langt. Hann var með þetta lið þegar það fór á EM. Þetta er mjög spennandi fyrir mig og allt liðið. Maður sér strax að þetta er sterkt teymi við höfum,“ sagði Arnór.