„Tilfinningin var geggjuð. Fyrst og fremst erum við stoltir að því að vera hérna,“ sagði Sveinn Aron Guðjohnsen landsliðsmaður U-21 árs liðsins í fótbolta aðspurður hvernig það væri að ganga inn á völlinn þegar Ísland mæti Rússlandi á EM í Ungverjalandi í gær.
Því miður fyrir Svein og félaga tapaðist leikurinn 1:4 þar sem staðan í hálfleik var 0:3. Rússar skoruðu þrjú mörk á síðasta korterinu í fyrri hálfleik.
„Mér fannst við vera með stjórn á varnarleiknum fram að fyrsta markinu. Þeir voru mikið með boltann, en við erum vanir því. Ég var ekkert stressaður. Eftir fyrsta markið fékk ég svipaða tilfinningu og í leiknum á móti Svíþjóð. Við urðum óþolinmóðir og þá kom stress í menn og þá fór allt í vesen á síðustu mínútunum í fyrri hálfleik,“ sagði Sveinn, en Ísland tapaði 0:5 fyrir Svíþjóð á útivelli í undankeppninni.
Ísland mætir Danmörku í næsta leik mótsins á sunnudaginn kemur þar sem ekkert annað en sigur er í boði, ætli liðið sér áfram í átta liða úrslit. Það verður hins vegar þrautin þyngri þar sem Danir gerðu sér lítið fyrir og unnu Frakka í gær, 1:0. „Við ætlum að vinna alla leiki, við erum þannig gerðir. Ég sá markið þeirra í gær sem var geðveikt. Annars er ég ekki búinn að sjá mikið meira af þeim,“ sagði hann.
Sveinn Aron er að láni hjá OB í Danmörku frá Spezia á Ítalíu. Hann hefur hins vegar lítið fengið að spila hjá danska liðinu.
„Staðan hjá mér hjá OB hefur ekki verið góð. Ég hef ekkert fengið að spila. Það er erfitt að fá að vera ekki með. Maður þarf að sýna þolinmæði. Það var ekkert ósætti,“ sagði hann. Þrátt fyrir erfiða stöðu hjá félagsliði hefur Sveinn Aron blómstrað með U21-árs liðinu og hann skoraði mark Íslands í gær. Hann viðurkennir að hann eigi ekki von á kalli inn í A-landsliðið á næstunni.
„Ég hef fengið mikið traust frá þjálfaranum og mikið af mínútum. Þetta hefur virkað vel. Á þessum tímapunkti er ég ekki að spila nóg til að vera valinn í A-landsliðið. Ég er ekki að búast við kallinu strax,“ sagði hann.