Enski knattspyrnumaðurinn Oscar Borg hefur samið við Stjörnumenn um að leika með þeim á komandi keppnistímabili en hann kemur til þeirra frá spænska C-deildarliðinu Arenas.
Borg er 23 ára gamall, leikur sem vinstri bakvörður og ólst upp hjá West Ham. Hann samdi síðan við Aston Villa þegar hann var átján ára og lék með U23 ára liði félagsins. Eftir það lék hann með enska utandeildaliðinu Braintree Town, áður en hann fór til Spánar.
Frá þessu er sagt á Facebook-síðu Stjörnunnar og þar kemur fram að meiðsli hafi komið í veg fyrir frama hans hjá Aston Villa. Ennfremur að litlu hefði munað að hann gengi til liðs við Manchester United.
Borg er væntanlega ætlað að fylla skarð Jósefs Kristins Jósefssonar hjá Stjörnunni en Grindvíkingurinn lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.