„Ákveðnir hlutir sem við viljum gera betur“

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21-árs landsliðsins, á hliðarlínunni í …
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21-árs landsliðsins, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Rússlandi á fimmtudaginn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, segir stöðuna á hópnum góða og að enginn sé meiddur fyrir leikinn á morgun gegn Danmörku í úrslitakeppni Evrópumótsins í Györ í Ungverjalandi.

„Það eru engin meiðsli. Það er bara endurheimt og æfing þar sem við munum nýta daginn vel í undirbúning fyrir leikinn á morgun,“ sagði Davíð Snorri á teams-fjarfundi með blaðamönnum í morgun.

Ísland tapaði fyrsta leiknum í úrslitakeppninni illa gegn Rússum, 1:4, og segist Davíð Snorri vera búinn að fara yfir hann. „Eftir að hafa horft á leikinn aftur eru auðvitað ákveðnir hlutir sem við viljum gera betur. Síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik sérstaklega, þá missum við tökin og það drepur leikinn,“ en Rússland skoraði á 42. mínútu og fyrstu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og fór því með 0:3-forystu í til leikhlés.

Aðspurður hvort einhver líkindi séu með rússneska liðinu og því danska sagði hann: „Þetta er ekki sama lið. Þeir leita reyndar í svipuð svæði en varnarleikurinn er ekki eins. Þeir eru mjög vel skipulagðir og þroskaðir í leik sínum. Á erfiðum augnablikum vinna þeir mjög vel saman og eru einfaldlega mjög gott lið.“

Davíð Snorri vill þó einblína á eigið lið. „Við skoðum auðvitað hvernig þeir spila en aðalatriðið er hvað við viljum gera. Við þurfum fyrst og fremst að klára okkar, okkar færslur og hvaða svæðum við lokum. Það eru ákveðin grunnatriði sem við þurfum að fara yfir.

Það er mjög góður liðsandi hjá okkur, við vinnum saman þegar við sigrum og þegar við töpum. Það er hægt að ákveða hvernig hugarfar maður tileinkar sér og okkar hugarfar er mjög gott. Við munum spila okkar leik sem best við getum og vera mjög vel undirbúnir. Við erum vel samkeppnishæfir.“

Hann vildi skiljanlega ekkert gefa upp um mögulegar breytingar á byrjunarliði í leiknum á morgun en sagði þó að á lokamóti mætti alltaf eiga von á einhverjum breytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert