Þegar flautað verður til leiks á hásléttunni við Kákasusfjöllin, í einni elstu borg heims, Jerevan, klukkan 16 á morgun að íslenskum tíma hittir íslenska karlalandsliðið í fótbolta á einhvern versta tímann til að mæta liði Armeníu.
Armenska landsliðið hefur frá því í september gengið í gegnum sinn besta kafla í sögunni en eftir 1:0-sigur gegn Liechtenstein á útivelli í Vaduz í fyrrakvöld í fyrstu umferð undankeppni heimsmeistaramótsins eru Armenar ósigraðir í sex leikjum í röð frá 8. september og hafa unnið fjóra þeirra.
Sjálfstraustið er því væntanlega eins og best getur verið í þeirra röðum. Sigurmarkið í Vaduz í fyrrakvöld var sjálfsmark á 83. mínútu og sigurinn því naumur en kærkominn fyrir armenska liðið.
Armenar unnu sér í nóvember mjög óvænt sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar, þar sem þeir gætu þá einmitt mætt Íslendingum, með því að vinna sinn riðil í C-deildinni eftir tvísýna baráttu við Norður-Makedóníu, Georgíu og Eistland.
Þeir sigruðu Norður-Makedóníu, 1:0, í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni með marki frá Hovhannes Hambardzumyan, leikmanni Anorthosis á Kýpur, og þurftu þó að spila þann heimaleik sinn á Kýpur vegna stríðsástandsins í landinu. Aðeins einn af þessum sex síðustu leikjum Armena hefur verið leikinn í Jerevan af sömu sökum en þeir hafa átt í langvarandi stríðsátökum við granna sína í Aserbaídsjan vegna héraðsins umdeilda Nagorno-Karabakh, sem er innan landamæra Aserbaídsjans.
Armenar eru í svipuðum sporum og Íslendingar þessa dagana. Ísland leikur án Gylfa Þórs Sigurðssonar og Armenar leika án síns langbesta manns, Henrikhs Mkhitaryan, sem er fyrirliði liðsins, og langmarkahæstur í sögu landsliðsins með 30 mörk í 88 landsleikjum.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag