„Ekki spurning að þetta er gott lið“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari íhugull eftir tapið gegn Þýskalandi á …
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari íhugull eftir tapið gegn Þýskalandi á fimmtudaginn. AFP

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, segir Armeníu hafa góðu liði á að skipa og hafi náð góðum árangri að undanförnu. Á morgun mætast liðin í Jerevan í Armeníu í undankeppni HM 2022.

„Við erum að sjálfsögðu búnir að horfa á þeirra leiki frá þjóðadeildinni síðastliðið haust. Svo horfðum við á Liechtensteinleikinn sem þeir spiluðu á fimmtudaginn. Þeir réðu lögum og lofum gegn þeim frá fyrstu til síðustu mínútu,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í Jerevan í morgun.

„Þeir eru með þjálfara frá Spáni og spila yfirleitt 4-4-2-kerfi sem virkar vel fyrir þá. Það er mikil ákefð og orka í þessu liði. Þeir eru duglegir og góðir að setja pressu á boltann. Þetta lið er mjög gott og vel skipulagt. Það hefur náð mjög góðum árangri undanfarið, sérstaklega á heimavelli. Þannig að það er ekki spurning að þetta er gott lið,“ bætti hann við.

Aðspurður hvort Arnar Þór muni gera margar breytingar milli leikja sagði hann: „Við munum gera breytingar milli leikja, það var vitað. Það er spurning hvað getur talist margar breytingar. Við gerum allavega fleiri breytingar en ef það væru bara tveir leikir í þessum landsleikjaglugga eins og venjulega. Við erum að dreifa álaginu.“

Eins og Arnar Þór hefur áður minnst á var liðið með plan A, B og C varðandi leikmannahópinn og eitt af því sem hann leit til þess að geta gert var að kalla leikmenn úr U21-árs landsliðinu, sem er um þessar mundir að spila í úrslitakeppni Evrópumótsins í Györ í Ungverjalandi, ef með þyrfti.

Þar sem enginn leikmaður er óleikfær, allir heilir, eftir 0:3-tapið gegn Þýskalandi á fimmtudaginn hefur Arnar Þór ekki fundið sig knúinn til að nýta sér þann möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert