Jóhann Berg æfði og Rúnar mikið betri

Jóhann Berg Guðmundsson æfði af fullum krafti í gær.
Jóhann Berg Guðmundsson æfði af fullum krafti í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, segir Rúnar Má Sigurjónsson allan vera að koma til eftir að hafa farið meiddur af velli í 0:3-tapinu gegn Þýskalandi á fimmtudaginn. Þá hafi Jóhann Berg Guðmundsson æft af fullum krafti í gærmorgun.

„Rúnar er miklu betri. Hann fékk högg á augað, það var potað í augað á honum og hann sá ekki út um það. Hann var með mikinn hausverk eftir leikinn en er að lagast,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í Jerevan í Armeníu í morgun, en íslenska liðið mætir þar heimamönnum í undankeppni HM 2022 á morgun.

Þar bætti hann því við að ekkert væri að plaga Jóhann Berg. „Jói æfði 100 prósent með leikmönnum gærmorgun í Þýskalandi og það tóku sig engin meiðsli upp aftur. Hann er í fínu standi.“

Arnar Þór sagðist raunar ekkert geta kvartað þar sem leikmenn hópsins væru í fínu standi.

„Ástandið er mjög gott. Tveir sem spiluðu gegn Þýskalandi byrjuðu í endurheimt og þeir sem spiluðu minna fengu góða æfingu í gær. Þetta var erfitt ferðalag til Armeníu þar sem er mikill tímamismunur. Við seinkuðum öllu svo leikmenn gætu fengið góða hvíld. Við sjáum betur á eftir að æfingu lokinni hvort það sé eitthvert hnjask á leikmönnum en við búumst ekki við því.“

Því hafi ekki þurft að kalla leikmenn upp úr U21-árs landsliðinu, sem var að sögn Arnars Þórs viðbúið ef einhver meiðsli hefðu komið til í leiknum gegn Þýskalandi á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert