Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi tvo nýliða í 23 manna landsliðshóp sinn sem mætir Ítalíu 13. apríl í vináttulandsleik á Ítalíu en hópurinn var opinberaður á blaðamannafundi í gær.
Báðir nýliðarnir koma úr röðum Breiðabliks, þær Hafrún Rakel Halldórsdóttir og markvörðurinn Telma Ívarsdóttir, en saman eiga þær að baki 50 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Hafrún Rakel, sem er 18 ára gömul, gekk til liðs við Breiðablik haustið 2019 eftir þrjú tímabil með uppeldisfélagi sínu Aftureldingu í 1. og 2. deildinni. Þar skoraði hún 8 mörk í 42 deildaleikjum áður en hún samdi við Breiðablik en hún lék alla fimmtán leiki Breiðabliks á síðustu leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari í sautjánda sinn í sögu félagsins undir stjórn Þorsteins.
„Ég þekki Hafrúnu vel sem leikmann og hún hefur alla burði til þess að verða framtíðarleikmaður í íslenska landsliðinu,“ sagði Þorsteinn meðal annars um val sitt á leikmanninum í gær. Hafrún var sjálf í skýjunum með valið þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar í gær en valið kom henni sjálfri á óvart.
„Ég er bara mjög ánægð,“ sagði Hafrún Rakel. „Það hefur verið markmiðið hjá mér að spila fyrir íslenska landsliðið alveg frá því ég var lítil stelpa og þetta kom mjög skemmtilega á óvart. Ég vissi í raun ekki að ég yrði í hópnum fyrr en hann var opinberaður á heimasíðu KSÍ þannig að þetta kom mér alveg jafn mikið á óvart og öðrum,“ bætti hún við.
Nánar er rætt við Hafrúnu og fjallað um landsliðið í Morgunblaðinu í dag