„Mér líður vel, endurheimtin hefur verið fín og ég er klár í leikinn á morgun. Við vissum auðvitað að þetta yrði erfiður leikur gegn góðu liði Þjóðverja, það eru 17 leikir í röð sem þeir hafa unnið í undankeppni HM. Við vorum mikið að verjast í leiknum en við hefðum getað verið betri á boltann. Við komum til með að bæta það í leiknum á morgun.“
Þetta sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði A-landsliðs karla í knattspyrnu, á blaðamannafundi í Jerevan í Armeníu í morgun, en liðið tapaði sem kunnugt er 0:3 gegn Þýskalandi á fimmtudaginn í undankeppni HM 2022.
Aðspurður hvort hann finni fyrir miklum breytingum á liðinu, til dæmis hvað leikkerfið varðar, eftir að Arnar Þór Viðarsson tók við sem landsliðsþjálfari segir Aron Einar:
„Breytingar eru ekkert miklar. Þetta eru smá öðruvísi hreyfingar í ákveðnum færslum, það er ekki mikið sem þarf að breyta. Mér fannst við venjast því hratt gegn Þjóðverjum, þessar hreyfingar koma svolítið sjálfkrafa hjá okkur.
Við erum vanir ýmsu hjá félagsliðum okkar þar sem við spilum ýmis kerfi. Mitt hlutverk í þessu liði er að vera sitjandi miðjumaður og stjórna svolítið í kringum mig. Það er ekkert nýtt fyrir mér.“
Spurður um hvað væri lykillinn að sigri gegn Armeníu í næsta leik undankeppninnar á morgun sagði Aron Einar: „Við þurfum að spila okkar leik og gera það almennilega, þurfum að vera skipulagðir og þolinmóðir í bæði vörn og sókn. Svo þurfum við að halda boltanum betur.
Þetta er skipulagt lið með mikið sjálfstraust, við þurfum að vera þolinmóðir að brjóta þá niður. Við sköpum okkur alltaf færi og þurfum að nýta þau.“