„Það er enn raunhæfur möguleiki á að komast áfram, ég held að riðillinn sé miklu jafnari en menn halda,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, eftir 2:0-tap gegn Armeníu í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.
„Þýskaland er að mínu mati með langbesta liðið og svo koma fjögur lið sem geta tekið stig hvert af öðru. Ég held að menn geri sér ekki endilega grein fyrir því hversu sterkt þetta lið Armeníu er á heimavelli,“ bætti hann við en Arnar var að ræða við fjölmiðla á blaðamannafundi í Jerevan strax að leik loknum. „Það eina sem skiptir máli núna er að leikgreina þennan leik og undirbúa okkur fyrir næsta, sem kemur strax eftir nokkra daga. Það eina sem er í boði núna er næsti leikur.“
Þá segist Arnar ekki hafa áhyggjur af því að íslenska liðið geti ekki skorað mörk en liðinu hefur ekki tekist að skora í fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppninni.
„Við erum með marga sóknarmenn í hópnum en þessi leikur snerist ekki um það. Þetta var lokaður leikur með fáum færum, leikur sem spilast þannig að hann fellur með því liði sem nær að skapa sér fyrsta markið. Ég hef engar áhyggjur af því að við getum ekki skorað mörk.“
Ísland heimsækir Liechtenstein á miðvikudaginn í þriðju umferðinni og segir Arnar að liðið geti lært af leiknum í dag. „Ég er ekki að segja að okkar ákefð hefði ekki verið til staðar, en við getum lært af þessum leik. Nú hvílum við okkur aðeins og sjáum til þess að allir sem geta spilað á móti Liechtenstein verði eins frískir og mögulegt er.“