Mikil spenna í riðli Íslands

Odsonne Édouard umkringdur Rússum í leiknum í kvöld.
Odsonne Édouard umkringdur Rússum í leiknum í kvöld. AFP

Frakkar voru rétt í þessu að vinna 2:0-sigur á Rússlandi í Evr­ópu­móti U21-árs liða í knatt­spyrnu í Ungverjalandi. Það þýðir að mikil spenna er fyrir lokaumferð riðilsins sem fer fram á miðvikudaginn.

Odsonne Édouard og Jonathan Ikoné skoruðu mörk Frakka í leiknum á 15. og 24. mínútu en bæði mörkin komu af vítapunktinum. Úrslitin þýða að Danir eru á toppi riðilsins með sex stig, Frakkar og Rússar eru með þrjú stig hvor og Ísland rekur lestina á botninum án stiga.

Í lokaumferðinni leikur Ísland gegn Frakklandi og á sama tíma mætast Danir og Rússar. Dönum nægir stig til að tryggja sér sigur í riðlinum. Til þess að Ísland eigi von á að kom­ast áfram í átta liða úr­slit­in þarf liðið að treysta á að Dan­mörk vinni Rúss­land á miðviku­dag­inn og þá þyrfti Ísland um leið að vinna Frakk­land með nógu mikl­um mun til þess að standa best að vígi í inn­byrðis viður­eign­um.

Þá eru Englendingar nánast dottnir úr leik eftir 2:0-tap gegn Portúgal í D-riðlinum. Dany Mota og Francisco Trincao skoruðu mörk Portúgals sem nú er í kjörstöðu með fullt hús stiga eftir leikina sína tvo. Englendingar þurfa hins vegar á litlu kraftaverki að halda, mæta Króatíu í lokaumferðinni og verða að vinna þar á meðan Sviss tapar gegn Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert