Kári Árnason hefur komið inn í byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Armeníu klukkan 16 þar sem Ragnar Sigurðsson meiddist í upphitun og getur því ekki verið með.
Ísland er að spila annan leik sinn í J-riðli í undankeppni HM í knattspyrnu en leikið er á Lýðveldisvellinum í Jerevan, höfuðborg Armeníu. Kári spilaði ásamt Sverri Inga Ingasyni í vörninni gegn Þýskalandi á fimmtudaginn og ljóst að þeir tveir spila aftur saman í dag en Ragnar var ónotaður varamaður í Duisburg.