Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari karlaliðs Fylkis í knattspyrnu, telur fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar vera aðalástæðuna fyrir slæmu gengi A-landsliðsins í yfirstandandi landsleikjaglugga. Þá segir hann U21-árs landsliðið ekki samanburðarhæft við gullkynslóðina frá 2011.
„Eins og kannski flestum hefur mér þótt úrslitin erfið. Hjá A-liðinu er Þýskaland úti auðvitað alltaf mjög erfitt og svo var Armenía bara betra í þessum leik í gær. Við eigum alltaf svolítið erfitt þegar Gylfi er ekki með.
Gylfi hefur sýnt það svo oft að hann er potturinn og pannan í sóknarleiknum og þótt aðrir hafi auðvitað sýnt jákvæða takta þá vantar bara svo mikið þegar Gylfi er ekki. Svo erum við kannski að ganga í gegnum smá kynslóðaskipti sem munu líklega taka sinn tíma,“ segir Atli Sveinn í samtali við mbl.is í dag.
Spurður hvað honum hafi þótt um frammistöðu U21 árs landsliðsins í yfirstandandi landsleikjaglugga, sem hefur líkt og A-landsliðið tapað báðum leikjum sínum, segir Atli Sveinn: „Ég held að flestir hafi verið með meiri væntingar og fólk var þá kannski að bera liðið saman við gullkynslóðina sem tók þátt á EM árið 2011.
Þó að þetta lið sé mjög gott og búið að gera mjög vel með því að komast í úrslitakeppnina þá er þetta lið bara aðeins á eftir þeirri kynslóð. Akkúrat núna er það virkilega vel gert að 21-árs liðið sé komið á þennan stað en eins og staðan er núna erum við einfaldlega á eftir þessum toppþjóðum.“
Aðspurður hvað væri hægt að gera til þess að bæta frammistöðu og þar með úrslit landsliðanna segist Atli Sveinn ekki vilja hafa vit fyrir þjálfurunum. „Ég leyfi landsliðsþjálfurunum að vinna sín störf, þeir vita hvar styrkleikar og veikleikar, bæði hvað varðar leikmenn og leikkerfi, liggja.
Það er auðvelt að segja eitthvað úr fjarlægð en þetta eru allt fagmenn og ég treysti þeim fyllilega til þess að vinna sín störf og gera sitt allra besta.“
Hann segir það sama eiga við um ákvörðun Arnars Þórs Viðarssonar um að taka fjóra leikmenn U21-árs landsliðsins upp í A-landsliðð. „Ég treysti þessum þjálfurum alveg til þess að gera réttu hlutina og ég hef ekkert nema gott um þeirra störf að segja. Þeir velja þetta svona og ég treysti þeim fyrir því.
En hins vegar það sem snýr að okkur hérna heima, þá getum við hjálpað okkar leikmönnum, um það bil 15 ára og eldri, að verða betur líkamlega undirbúnir í þessi átök, vegna þess að sem stendur er Ísland aðeins á eftir, til dæmis hvað hraða varðar,“ segir Atli Sveinn að lokum.