Kolbeinn Þórðarson, leikmaður U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, segir leikmenn liðsins styðja þá fjóra leikmenn sem voru kallaðir upp í A-landsliðið í morgun. Um gott tækifæri sé að ræða fyrir þá.
Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Sveinn Aron Guðjohnsen voru kallaðir upp í A-landsliðshópinn fyrir leik liðsins gegn Liechtenstein í undankeppni HM 2022.
Það þýðir að fjórmenningarnir verða ekki með U21-árs liðinu í síðasta leik C-riðils lokakeppni Evrópumótsins gegn Frakklandi, einnig á miðvikudaginn. Liðið eygir þar smá möguleika á að komast í átta liða úrslitin en til þess þyrfti Ísland að vinna Frakkland og treysta á að Danmörk vinni Rússland á sama tíma.
„Við vissum fyrir mót að þetta gæti gerst, að einhverjar færslur gætu orðið á milli. Þetta er fyrst og fremst gott tækifæri fyrir þessa stráka að fara upp í A-landsliðið. Á sama tíma er þetta tækifæri fyrir aðra leikmenn að fylla upp í þær lausu stöður sem þeir skilja eftir sig,“ sagði Kolbeinn á teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.