Hefði viljað sjá fleiri leikmenn kallaða inn

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari karlaliðs HK í knattspyrnu, hefði viljað sjá enn fleiri leikmenn kallaða upp í A-landsliðshópinn. Hann segir þó að vinna í þá átt hefði þurft að byrja fyrr.

„Það er bara gott,“ segir Brynjar Björn um þau tíðindi að fjórir leikmenn U21-árs landsliðsins hafi verið kallaðir upp í A-landsliðið í morgun. „Ég hef enga skoðun á því hverjir það eru en ég hefði viljað sjá fleiri leikmenn vera kallaða þarna inn. Við erum komnir á tímapunkt þar sem þarf að gefa nýjum leikmönnum tækifæri.

Hvort sem þeir eru yngri eða hvað, þetta snýst ekki um aldur, heldur þurfum við að fara að endurnýja liðið. Ég tel að Arnar og Eiður þurfi svolítið að búa sér til sitt lið,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir að fyrir síðustu undankeppni, þar sem íslenska A-landsliðið féll úr leik í umspili gegn Ungverjalandi, hefði verið hægt að spila á sömu mönnum en að nú sé kominn tími á uppstokkun í leikmannahópnum.

„Við erum að fara inn í aðra undankeppni núna. Það var tekinn sá póll í hæðina að fara með nánast sama liðið, sama hóp þegar það var hægt, og inn í síðustu undankeppni til þess að freista þess að ná inn í lokakeppnina og við vorum einhverjum mínútum frá því.

En úr því að það tókst ekki hefði mér fundist að nýr þjálfari eða forystan í kringum landsliðið, hefði átt að fara í smá endurnýjun. Þá er ég ekkert að setja út á þessa eldri leikmenn.

Þeir eru búnir að gera frábærlega og eru ennþá góðir leikmenn í dag. En hvort þeir verði að spila þarna áfram eftir eitt eða tvö ár, það er ég ekki viss um. Ég hefði viljað sjá nýja leikmenn og að nýir leikmenn yrðu keyrðir inn í nýtt kerfi,“ segir Brynjar Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert