Kolbeinn Sigþórsson og Ragnar Sigurðsson verða væntanlega ekki með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á miðvikudagskvöldið þegar það mætir Liechtenstein í Vaduz í undankeppni heimsmeistaramótsins.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari staðfesti þetta við fótbolta.net í dag. Ragnar meiddist í upphitun fyrir leikinn í Armeníu í gær og Kolbeinn fékk högg á höndina og er líklega úr leik, að sögn Arnars, en hjá honum kemur jafnframt fram að tveir til þrír leikmenn í viðbót séu tæpir fyrir leikinn.
Eins og fram kom í morgun hafa Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, Sveinn Aron Guðjónsson og Ísak Bergmann Jóhannesson verið kallaðir inn í A-landsliðið fyrir leikinn í Vaduz og þeir spila því ekki með 21-árs landsliðinu gegn Frökkum á EM á miðvikudaginn.