Ísak Óli Ólafsson missir af lokaleik íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu gegn Frakklandi í C-riðli lokakeppni EM í Györ í Ungverjalandi á miðvikudaginn kemur.
Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en Ísak fór meiddur af velli á 75. mínútu í 2:0-tapinu gegn Dönum í gær.
Ísak verður frá í rúmlega viku að sögn Davíðs Snorra Jónassonar, þjálfara íslenska liðsins, en Ísland er án stiga eftir fyrstu tvo leikina gegn Rússlandi og Danmörku í lokakeppninni.
„Staðan á hópnum er nokkuð góð, við misstum þessa stráka yfir [í A-liðið] en Ísak Óli er að glíma við örlitla tognun,“ sagði Davíð Snorri.
Þetta ætti ekki að vara lengur en svona viku til tíu daga. Ég sé ekki fram á það [að hann geti spilað]," sagði Davíð Snorri í samtali við fótbolta.net.