„Þurfum að verða betri í fótbolta“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur. Eggert Jóhannesson

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur í knattspyrnu karla, segist hefðu viljað sjá betri frammistöðu hjá karlalandsliðunum í yfirstandandi landsleikjahléi, en bæði A-landsliðið og U21-árs landsliðið hafa tapað báðum leikjum sínum í því. Hann segir tíma kominn á endurnýjun í A-landsliðinu.

„Mér hefur náttúrlega ekki fundist úrslitin nógu góð. Maður hefði viljað sjá betri frammistöðu líka. En auðvitað eru báðir landsliðsþjálfararnir nýteknir við og það er auðvitað erfitt því að landsliðsþjálfari fær lítinn tíma með liðinu sínu til undirbúnings. Svo er auðvitað ekki ákjósanlegt að fara beint í mjög erfiða leiki,“ segir Sigurður Ragnar í samtali við mbl.is spurður út í frammistöðu landsliðanna í yfirstandandi landsleikjaglugga.

„Maður vill engu að síður sjá, í A-landsliðinu, að það sé farið að huga meira að endurnýjun og það hefði mátt gera mun fyrr finnst mér. Þá er ég ekki að tala um að umturna öllu liðinu heldur huga samt að framtíðinni.

Undanfarið hafa verið spilaðir æfingaleikir með mjög reyndum leikmönnum þegar maður hefði kannski viljað sjá yngri menn fá tækifæri til að þróast, gera sín mistök og læra til þess að verða betri,“ segir hann.

Spurður um hvað landsliðin þurfi að gera til þess að bæta frammistöðu sína og ná fram úrslitum segir Sigurður Ragnar: „Það er auðvitað starf landsliðsþjálfaranna en ég er á svolítið svipaðri línu og Arnar Gunnlaugsson, að við þurfum að þróa okkar leik betur.

Við þurfum að verða betri í uppspili og að halda bolta. Við þurfum að pressa betur. Við þurfum að auka tímann sem við erum með boltann ef við ætlum að vera lið sem heldur áfram að ná góðum árangri. Við höfum kannski einblínt of mikið á lágpressu og að gefa eftir boltann og vera sterkir í föstum leikatriðum og þar fram eftir götunum. Við þurfum að verða betri í fótbolta.

Vantar heila kynslóð

Í morgun var tilkynnt að fjórir leikmenn úr U21-árs landsliðinu hefðu verið teknir upp í A-landsliðið fyrir leik þess síðarnefnda gegn Liechtenstein í undankeppni HM á miðvikudaginn. Það er gert þrátt fyrir að U21-árs landsliðið eigi enn fræðilegan möguleika á að komast áfram í átta liða úrslitin á EM, þó sá möguleiki sé mjög lítill.

„Ég er alveg fylgjandi því að yngri leikmenn fái tækifæri með A-landsliðinu en það vantar kannski alveg heila kynslóð þarna inn á milli, það eru leikmenn sem hafa kannski fengið of fá tækifæri sem maður hefði alveg viljað sjá fá fleiri tækifæri. Við eigum alveg leikmenn sem eru eldri en 21-árs landsliðið en samt ekki komnir yfir þrítugt, það er heil kynslóð.

En ég held að 21-árs landsliðið eigi afskaplega lítinn möguleika þótt hann sé fræðilegur. Ég sé það ekki gerast ef maður horfir bara raunhæft á hlutina og auðvitað fá þá einhverjir aðrir tækifæri með 21-árs landsliðinu,“ segir Sigurður Ragnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert