„Eftir þessa tvo ósigra gegn Þýskalandi og Armeníu er ljóst að íslenska liðið má ekki misstíga sig í leiknum í Liechtenstein. Þangað verður það að sækja þrjú stig og eftir það verður góður tími til að undirbúa liðið fyrir alla heimaleikina í haust,“ sagði Helgi Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Liechtenstein í knattspyrnu og aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins á árunum 2016 til 2018 við Morgunblaðið í gær.
Íslenska liðið kom í gær til Sviss frá Armeníu og býr sig þar undir leikinn sem fram fer í Vaduz, höfuðstað Liechtenstein, annað kvöld. Heimamenn í Liechtenstein fengu skell í Norður-Makedóníu, 5:0, á sunnudaginn og höfðu áður tapað 0:1 fyrir Armeníu á heimavelli síðasta miðvikudag.
Hafa lítið spilað í heilt ár
Helgi sagði að undirbúningurinn hjá Liechtenstein hefði verið erfiður fyrir þessa landsleiki. „Vandamál þeirra er að flestir leikmannanna spila í áhugamannadeildum í Sviss og þar hefur keppni legið niðri í nánast eitt ár vegna kórónuveirunnar. Það sem hefur bjargað málunum er að landsliðið mátti æfa, það telst vera á atvinnustigi, og þar með hefur nýi þjálfarinn getað verið með þá landsliðsmenn sem ekki eru atvinnumenn á æfingum þrisvar til fjórum sinnum í viku síðan í janúar.
Þeir eru því í þokkalegri æfingu en vantar leikformið og fyrir lið með litla breidd eins og Liechtenstein er afar erfitt að spila þrjá leiki á sex dögum. Sú staða kom líka upp þegar ég var með liðið og þá voru strákarnir þokkalega búnir á því í þriðja og síðasta leiknum,“ sagði Helgi en tók fram að það þyrfti eftir sem áður að vara sig á liði furstadæmisins.
Viðtalið við Helga má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.