Ísland vann sinn fyrsta leik og skoraði sín fyrstu mörk í undankeppni HM karla í fótbolta 2022 er liðið heimsótti Liechtenstein í kvöld. Íslenska liðið var sterkara frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og varð öruggur 4:1-sigur staðreynd. Ísland er nú með þrjú stig í J-riðli.
Íslenska liðið var með mikla yfirburði allan fyrri hálfleikinn og byrjaði af miklum krafti. Eftir mikla pressu frá fyrstu mínútu kom fyrsta markið á 12. mínútu. Birkir Már Sævarsson skallaði þá í netið ef stuttu færi eftir flotta sendingu frá Herði Björgvin Magnússyni.
Ísland hélt áfram að pressa, fékk fjölda hornspyrna og skapaði sér fín færi. Það skilaði sér að lokum á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Birkir Bjarnason skoraði af stuttu færi eftir skalla frá Arnóri Ingva Traustasyni í teignum eftir sendingu frá Aroni Einari Gunnarssyni.
Birkir hafði áður gert sig líklegan en Justin Ospelt varði vel í marki Liechtenstein varði virkilega vel frá honum. Þá átti Jóhann Berg Guðmundsson skot af löngu færi en boltinn fór framhjá. Staðan í leikhléi var því 2:0.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Ísland var miklu meira með boltann og skapaði sér fín færi. Þriðja markið kom loksins á 77. mínútu þegar Guðlaugur Victor Pálsson skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf hjá varamanninum Jóni Degi Þorsteinssyni.
Liechtenstein fékk sína fyrstu hornspyrnu tveimur mínútum síðar og Yanik Frick gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr henni og minnkaði muninn í 3:1. Ísland átti hinsvegar lokaorðið því Rúnar Már Sigurjónsson náði í víti í uppbótartíma. Hann tók spyrnuna sjálfur, skoraði af öryggi og gulltryggði sannfærandi sigur Íslands.