Knattspyrnufélagið Þróttur hefur samið við enska framherjann Sam Ford og mun hann leika með liðinu í sumar. Ford var áður á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu West Ham United.
Hann er 22 ára gamall og uppalinn hjá Ipswich Town en fór þaðan 17 ára gamall til West Ham. Hjá West Ham var hann lánaður til neðri deildar liða á Englandi og samdi svo við eitt þeirra, Felixstowe.
Nú síðast lék hann með Kosice í B-deildinni í Slóvakíu eftir stutt stopp í Ástralíu þar á undan, þar sem hann spilaði fyrir Melbourn Sharks.
Ford hefur æft með Þrótti að undanförnu og er lýst sem góðum framherja með markanef á heimasíðu Þróttar.