Króatíski knattspyrnumarkvörðurinn Dino Hodzic er kominn í raðir úrvalsdeildarliðs ÍA á nýjan leik en hann hefur samið um að leika með liðinu á þessu keppnistímabili.
Hodzic, sem er 25 ára gamall, kom til ÍA frá Mezökövesd í Ungverjalandi síðsumars 2019 og var varamarkvörður liðsins á lokaspretti keppnistímabilsins en spilaði ekki leik.
Hann færði sig síðan yfir í raðir Kára á Akranesi á síðasta ári og lék alla tuttugu leiki liðsins í 2. deildarkeppninni, og þótti einn besti markvörður deildarinnar.
Hodzic mun því keppa við Árna Snæ Ólafsson um markvarðarstöðuna hjá ÍA en Árni hefur ekki misst úr deildarleik með Skagaliðinu frá 2017.