Knattspyrnufélagið Kórdrengir úr Reykjavík sem leikur í fyrsta skipti í 1. deild karla á komandi keppnistímabili, hefur náð sér í mikinn liðsauka frá norðausturhluta Englands en þrír ungir leikmenn þaðan eru komnir til liðs við félagið.
Þetta eru Nathan Dale, 21 árs varnarmaður sem ólst upp hjá Middlesbrough og var síðast í röðum Gateshead, Conner Rennison, 18 ára miðjumaður, sem kemur frá Hartlepool, og Connor Simpson, 21 árs framherji sem ólst upp hjá Hartlepool og á m.a. að baki deildaleiki með Preston, Carlisle og írska félaginu Cork City en var síðast hjá Scarborough.
Á Facebook-síðu Kórdrengja segir að þremenningarnir séu komnir til landsins og í sóttkví. Kórdrengir eiga að mæta Aftureldingu í fyrstu umferð 1. deildar karla, Lengjudeildarinnar, þann 7. maí.