Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í undankeppni HM 2023 sem hefst í september.
HM 2023 fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en íslenska liðið hefur aldrei áður tekið þátt í lokakeppni HM.
Kvennalandsliðið hefur hins vegar farið á þrjú Evrópumeistaramót og er á leið á sitt fjórða næsta sumar þegar EM 2022 fer fram á Englandi.
Þátttökuþjóðirnar á HM 2023 verða 32 talsins í fyrsta sinn en undanfarin ár hafa 24 þjóðir tekið þátt á HM.
Dregið verður í riðla fyrir undankeppnina föstudaginn 30. apríl en ásamt Íslandi eru Belgía, Sviss, Austurríki, Skotland, Rússland, Finnland, Portúgal og Wales öll í öðrum styrkleikaflokki og Ísland getur því ekki mætt þeim.
Styrkleikaflokkur 1: Danmörk, England, Frakkland, Holland, Ítalía, Noregur, Spánn, Svíþjóð, Þýskaland.
Styrkleikaflokkur 2: Austurríki, Belgía, Finnland, Ísland, Portúgal, Rússland, Skotland, Sviss, Wales.
Styrkleikaflokkur 3: Bosnía, Írland, Norður-Írland, Pólland, Rúmenía, Serbía, Slóvenía, Tékkland, Úkraína.
Styrkleikaflokkur 4: Albanía, Aserbaídsjan, Grikkland, Hvíta-Rússland, Ísrael, Króatía, Norður-Makedónía, Slóvakía, Ungverjaland.
Dregið verður í níu riðla fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins og fara sigurlið undanriðlanna beint á HM.
Liðin sem hafna í öðru sæti síns riðils þurfa að fara í umspil um tvö laus sæti til viðbótar en liðið með lakastan árangur í undankeppninni og umspilinu tekur þátt í tíu liða móti með liðum úr öðrum heimsálfum þar sem þrjú síðustu sætin á HM verða í boði.