Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, kveðst þess fullviss að liðið geti orðið Íslandsmeistari í sumar.
„Breiðablik getur orðið Íslandsmeistari í sumar. Það er auðveldara að tala um það en erfiðara að spila eins og meistari, haga sér eins og meistari og vera meistari. Hvort sem það er á fótboltavellinum eða í daglegu lífi. Ég lofa því að við munum ekki falla á því að við lögðum okkur ekki fram,“ sagði Óskar Hrafn í sjónvarpsþætti 433.is á Hringbraut í vikunni.
Hann telur enda liðið hafa bætt sig frá síðasta sumri. „Við erum betra lið. Leikmennirnir hafa þroskast mikið og eru í betra líkamlegu formi. Menn eru vissari um hlutverk sín og þær viðbætur sem við höfum gert á hópnum hafa verið góðar.“
Breiðablik vakti athygli á síðasta tímabili fyrir góða spilamennsku á löngum köflum þar sem ávallt var og er lögð áhersla á að spila frá aftasta manni. Með því að gera það fékk liðið á sig talsvert af klaufalegum mörkum þegar það missti boltann í og við eigin vítateig. Að lokum endaði liðið í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
Óskar Hrafn er þó ekki á því að leikstíll Breiðabliks sé áhættusamur.
„Sumir kalla þetta áhættufótbolta. Ég met það þannig að ef þú spilar frá marki hefurðu meiri stjórn á því hvað gerist heldur en þegar þú bombar honum fram. Við höfum lent í meiri vandræðum þegar við spörkum langt.“
Þá sagðist hann ekki viss um að titlar væru eini mælikvarðinn á árangur. „Hvað er árangur? Metur maður árangur eingöngu út frá titlum eða því að menn verði betri í því sem þeir gera? Það er hættulegt að hengja sig í titla. Titlar þurfa að vera ávöxtur einhvers.
Það verður hnýtt í þetta á meðan við gerum klaufaleg mistök. Hvort mistök séu eðlilegur hluti eða óþægilegar aukaverkanir þá verður þetta alltaf gagnrýnt á meðan það næst ekki titill.“