KA varð í kvöld Norðurlandsmeistari karla í knattspyrnu fjórða árið í röð með því að sigra Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins á KA-vellinum en vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit.
Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Jakob Snær Árnason fyrir Þór á fjórðu mínútu síðari hálfleiks. Forystan entist ekki lengi því strax í næstu sókn jafnaði Steinþór Freyr Þorsteinsson fyrir KA, 1:1.
Það urðu lokatölurnar og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar hafði KA betur, 4:2.
KF varð í þriðja sæti mótsins eftir sigur á Magna, 5:0, á KA-vellinum í gærkvöld. Leikið var í tveimur riðlum í A-deild mótsins þar sem KA og Þór unnu sinn riðilinn hvort og léku því til úrslita.