Fyrstudeildarliðin ekki í vandræðum - varamaður með þrennu

Daði Bergsson skoraði tvö fyrir Þróttara í kvöld.
Daði Bergsson skoraði tvö fyrir Þróttara í kvöld. mbl.is/Hari

Ellefu leikir voru spilaðir í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld og voru þar úrslitin að mörgu leyti eftir bókinni. Fyrstudeildarlið Grindavíkur og Þróttar úr Reykjavík unnu stórt gegn liðum úr 4. deild.

Þróttarar fóru í Breiðholtið og unnu 6:1-sigur á liði KB. Daði Bergsson og Róbert Hauksson skoruðu tvö mörk hvor fyrir gestina og þeir Baldur Hannes Stefánsson og Magnús Pétur Bjarnason eitt hvor. Mark heimamanna skoraði Sebastian Miastkowski.

Þá lenti Grindavík ekki í teljandi vandræðum með Smára í Kópavoginum og vann 4:1. Viktor Guðberg Hauksson og Sigurður Bjartur Hallsson komu gestunum frá Grindavík í tveggja marka forystu og Símon Logi Thasaphong bætti við tveimur mörkum en þar á milli klóraði Óliver Máni Scheving í bakkann fyrir heimamenn.

Ellert Hreinsson kom inná sem varamaður og skoraði þrennu í 12:0 yfirburðasigri 3. deildarliðs Augnabliks á 4. deildarliði Mídasar á Víkingsvellinum.

Jóhann Þór Arnarsson skoraði sigurmark Víðis gegn Létti í Mjóddinni, 2:1, á fimmtu mínútu í uppbótartíma, rétt eftir að Már Viðarsson hafði jafnað fyrir Léttismenn.

Úrslitin í kvöld:

Tindastóll – Völsungur 0:2
Völsungur mætir Kormáki/Hvöt eða Hömrunum

KB – Þróttur R. 1:6
Þróttur R. mætir Víkingi Ó. eða Gullfálkanum

Smári – Grindavík 1:4
Grindavík mætir Hvíta riddaranum

KV – Þróttur V 1:3
Þróttur V. mætir Gróttu

Léttir – Víðir 1:2
Víðir mætir Fram eða Herði

Elliði – ÍR 2:3
ÍR mætir Álftanesi

Hvíti riddarinn – Árborg 4:1
Hvíti riddarinn mætir Grindavík

KFG – Álftanes 0:2
Álftanes mætir ÍR

Björninn – KÁ 0:3
KÁ mætir Fjölni

Mídas – Augnablik 0:12
Augnablik mætir Ægi eða Uppsveitum

Úlfarnir – Ísbjörninn 2:0
Úlfarnir mæta Vatnaliljum eða ÍH

Tuttugu leikir eru eftir í umferðinni, tólf á morgun, sjö á sunnudag og sá síðasti á mánudagskvöld. Keppnin hófst í gærkvöld þegar Njarðvík vann KH 3:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert