Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is endar HK í 9. sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á komandi keppnistímabili.
Fimmtán íþróttafréttamenn og leiklýsendur spáðu fyrir um lokaröð liðanna og flestir gerðu ráð fyrir því að HK-ingar yrðu í neðri hluta deildarinnar þegar upp verður staðið í haust.
HK leikur sitt þriðja tímabil í röð í deildinni og fimmta alls en liðið hefur undanfarin tvö ár hafnað í níunda sætinu og jafnað sinn besta árangur sem félagið náði árið 2007.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson, miðjumaður HK, segir spána eðlilega þótt leikmenn kippi sér ekki mikið upp við hana.
„Þetta kemur ekkert á óvart. Við höfum svolítið verið á þessum stað síðan við komum upp úr 1. deildinni þannig að ég held að það sé ekkert óeðlilegt að okkur sé spáð þessu sæti. En við erum svo sem ekkert mikið að spá í þessu held ég. Spá er spá og við bara tökum henni,“ segir Ásgeir Börkur í samtali við mbl.is.
Undirbúningur HK fyrir komandi tímabil hefur gengið betur en undanfarin ár. Ástæðuna fyrir því segir hann einfalda:
„Hann hefur bara gengið vel. Þetta er kannski í fyrsta skipti síðan við komum upp að við erum búnir að vera með svolítið heilan hóp allan veturinn. Það eru ekki menn að tínast inn rétt fyrir mót og að koma um mitt mót. Þetta er bara búið að vera sami hópurinn í allan vetur og ég held að það sé alltaf kostur.“
Auk þess að hafa á sama hóp að skipa allt undirbúningstímabilið hafa leikmenn HK lítið verið að meiðast á því. „Í rauninni ekki. Það eru einhverjir búnir að glíma við eitthvað smá en annars eru allir búnir að haldast nokkuð heilir í allan vetur sem er auðvitað bara jákvætt,“ segir Ásgeir Börkur.
HK hefur lagt upp með þéttan og vel skipulagðan varnarleik undanfarin tvö tímabil sín í Pepsi Max-deildinni. „Fyrst og fremst erum við vel þjálfaðir, bæði líkamlega og taktískt. Við vitum okkar hlutverk og það er alltaf jákvætt.
Við erum líka aðeins að þróa okkar leik og erum kannski ekki alveg þetta sama mikla varnarlið og við vorum þegar við komum fyrst upp. En við höldum enn þá fast í þau gildi og getum gripið til þeirra ef við þurfum,“ segir hann.
Ásgeir Börkur metur möguleika HK sem góða í sjö leikja hraðmótinu sem fram undan er í maí í Pepsi Max-deildinni.
„Ég er jákvæður maður með eindæmum, sérstaklega þegar kemur að mínu liði. Við erum með sterkan og góðan hóp og eins og ég sagði erum við búnir að vera með sama hópinn í allan vetur. Við erum með nærri því tvo leikmenn í hverri stöðu.
Ég held að við séum vel í stakk búnir til þess að fara í þetta hraðmót í byrjun og gera vel. Maður getur aldrei sagt hvort eða hvar maður getur tekið þrjú stig en ég held að við séum bara í toppmálum. Það eru allir heilir og við erum með þannig hóp að við getum skipt leikmönnum út og inn án þess að veikja liðið,“ segir hann.
Á þeim nótum varð það ljóst fyrir nýliðna helgi að Valgeir Valgeirsson snúi aftur til HK eftir að hafa verið á láni hjá enska B-deildarliðinu Brentford frá því í október síðastliðnum. Ásgeir Börkur segir það vitanlega vera frábærar fréttir fyrir liðið.
„Ég held að hann hafi lent í gær þannig að hann verður í sóttkví fram á föstudag líklegast. Hann er auðvitað frábær viðbót í þennan hóp. Það er geggjað að fá Valla aftur. Ég hef sjaldan spilað með svona ungum leikmanni sem er jafn andlega sterkur.“
HK
Þjálfari: Brynjar Björn Gunnarsson.
Árangur 2020: 9. sæti.
Komnir:
Birkir Valur Jónsson frá Spartak Trnava (Tékklandi) (úr láni)
Örvar Eggertsson frá Fjölni
Ívan Óli Santos frá ÍR
Farnir:
Þórður Þorsteinn Þórðarson í ÍA
Alexander Freyr Sindrason í Fjölni (lán)
Emil Skorri Brynjólfsson í ÍR
Jón Kristinn Ingason í ÍR
Hörður Árnason, hættur
Fimm fyrstu leikir HK:
1.5. HK - KA
8.5. HK - Fylkir
13.5. Valur - HK
17.5. HK - FH
21.5. HK - ÍA
Leikir HK í Lengjubikarnum í vetur:
HK - Grindavík 2:0
HK - Afturelding 2:0
HK - KA 1:2
HK - Valur 2:2
HK - Víkingur Ó. 6:0
Flest mörk: Bjarni Gunnarsson 5.
Nánar verður fjallað um lið HK í Morgunblaðinu í fyrramálið.