Íslensku fjórðudeildarliðin Úlfarnir og Ísbjörninn mættust í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins í Safamýri síðastliðið föstudagskvöld. Eftir leik fékk leikmaður Úlfanna nokkur hnefahögg í höfuðið og var því lögregla kölluð til.
Frá þessu er greint á Fótbolta.net. Þar segir að leikmaður Úlfanna hafi fengið áverkavottorð vegna árásarinnar og að allir leikmennirnir sem urðu vitni að henni hafi verið teknir í skýrslutöku af lögreglunni.
Í sérstökum hlaðvarpsþætti Fótbolta.net, Innkastið x Ástríðan, var málið rætt.
„Ég forvitnaðist aðeins um þetta og heyrði í mönnum í Safamýrinni. Það sem gekk þarna á er eitthvað sem maður er leiður að heyra. Það urðu einhver orðaskipti milli leikmanns Úlfanna og leikmanns í Ísbirninum í lok leiks. Á leiðinni inn í klefa standa fjórir til fimm menn frá Ísbirninum fyrir utan klefann og bíða eftir þessum leikmanni Úlfanna.
Það endar ekki betur en þannig að hann fær tvö til þrjú hnefahögg í höfuðið og liggur eftir, kúla á andlit. Það er bara kallað til lögreglunnar og allir leikmenn sem sáu þetta voru teknir í skýrslutöku. Leikmaður Úlfanna fór upp á sjúkrahús og fékk áverkavottorð. Ég veit ekki betur en að þetta sé komið í ferli hjá lögreglunni,“ sagði Sverrir Mar Smárason í þættinum.
Uppfært kl. 17.47
Í yfirlýsingu frá Ísbirninum sem birt er á fotbolti.net kemur eftirfarandi fram:
Í kjölfar einhliða fréttaflutnings fotbolta.net um þá atburðarrás sem átti að hafa átt sér stað eftir leik Úlfana og Ísbjarnarins í Mjólkurbikarnum. Þá vill Ísbjörninn koma eftirfarandi á framfæri:
Í útvarpsþættinum „Innkastið“ á vegum fótbolti.net er staðhæft að fjórir til fimm leikmenn Ísbjarnarins hafi beðið eftir leikmanni Úlfanna sem hafi svo fengið nokkur hnefahögg í kjölfarið. Framangreint er stórlega ýkt. Þessi frásögn er byggð á upplýsingum sem viðmælandi útvarpsþáttarins segist hafi fengið frá „sínum mönnum“ í Safamýrinni. Hér er um einhliða frásögn að ræða frá manni sem virðist tengjast leikmönnum Úlfanna vinaböndum. Það voru fleiri vitni að framangreindu, sem hafa gefið skýrslu til lögreglu, sem staðfesta aðra atburðarrás.
Málið er í rannsókn hjá lögreglu og verður ekki farið nánar út í atburðarrás hér.