10. sæti: Hópurinn í flottu standi til að spila þétt

Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA.
Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA. Árni Sæberg

Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is endar ÍA í 10. sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á komandi keppnistímabili. 

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu fyr­ir um lokaröð liðanna og flest­ir gerðu ráð fyr­ir því að Skagamenn yrðu í vandræðum í neðri hluta deildarinnar og gætu sloppið naumlega við fall þegar upp verður staðið í haust.

Skagamenn enduðu í áttunda sæti á síðasta tímabili en ofar hafa þeir ekki komist frá árinu 2015.

Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA, segist skilja spána þó að liðið stefni vissulega ofar.

„Já hún kemur lítið á óvart miðað við hvaða spár maður hefur séð hingað til. Miðað við hvernig hefur gengið á undirbúningstímabilinu þá er þetta alveg skiljanlegt þó að menn vilji alltaf fara ofar,“ segir Árni Snær í samtali við mbl.is.

Líkt og hann bendir á hefur ÍA átt í vandræðum á undirbúningstímabilinu.

„Við erum náttúrulega búnir að vera í mjög mikið af meiðslum, þá sérstaklega þessir reynslumeiri leikmenn í liðinu. Við höfum meira verið að spila á yngri leikmönnum, yfirleitt kannski fimm til sex í hverjum leik og undirbúningstímabilið er búið að litast svolítið af því. Það mun vonandi nýtast okkur þá síðar meir, að þessir ungu leikmenn séu að fá reynslu.

En þetta er farið að líta betur út núna þegar það eru færri reynslumeiri leikmenn í meiðslum. Það er mjög gott. Þannig að við erum sjaldan búnir að ná að mynda reynslumikið lið eins og við viljum gera í þessum undirbúning til þess að gíra okkur vel inn í þetta mót,“ segir Árni Snær.

Hann segir hópinn þó allan vera að koma til.

„Núna í síðasta leik voru allir með nema Sindri [Snær Magnússon]. Það er staðan núna og vonandi verður hann klár fyrir fyrsta leik. Ég held að það séu annars bara allir klárir þannig að þetta lítur virkilega vel út.“

Getum farið báðar leiðir

Árni Snær segir Skagamenn búa vel að því að geta skipt um leikstíl með góðu móti.

„Helstu styrkleikar okkar eru þeir að við erum mjög beinskeyttir og getum róterað leikstílnum okkar. Við sýndum það í fyrra að við getum haldið boltanum á móti góðum liðum og svo getum við líka legið til baka og sótt hratt á liðin, þótt það hafi kannski ekki gengið vel í fyrra að ná að vera þéttir, við eigum það alveg inni. Ég tel okkur því geta farið báðar leiðir.“

Að lokum segir hann það mikilvægt að ÍA nái í sem flest stig á því sem hann kallar réttilega hraðmót í byrjun tímabils, en sjö fyrstu umferðir Pepsi Max-deildarinnar fara fram á eins mánaðar tímabili frá lokum apríl til loka maí.

„Við þurfum bara að koma af fullum krafti inn í þetta eins og öll liðin reyna að gera í þessu hraðmóti í byrjun, það er að ná eins mörgum stigum og mögulegt er. Það er held ég planið hjá öllum liðum, að koma inn með alvörutrukki, það er stefnan hjá okkur líka, við erum alveg pottþéttir á því.

Án þess að vera að rýna í hvern og einn leik í þessu hraðmóti í byrjun þá er ég bara mjög jákvæður á það og spenntur að byrja. Hópurinn er í flottu standi til þess að spila svona þétt.“

ÍA
Þjálfari: Jóhannes Karl Guðjónsson.
Árangur 2020: 8. sæti.

Komnir:
Dino Hodzic frá Kára
Alexander Davey frá Tampa Bay Rowdies (Bandaríkjunum)
Þórður Þorsteinn Þórðarson frá HK
Hákon Ingi Jónsson frá Fylki
Elias Tamburini frá Grindavík
Eyþór Aron Wöhler frá Aftureldingu (úr láni)

Farnir:
Hlynur Sævar Jónsson í Víking Ó. (lán)
Marteinn Theodórsson í Víking Ó. (lán)
Stefán Teitur Þórðarson í Silkeborg (Danmörku)
Tryggvi Hrafn Haraldsson í Lillestrøm (Noregi)

Fimm fyrstu leikir Skagamanna:
30.4. Valur - ÍA
8.5. ÍA - Víkingur R.
13.5. FH - ÍA
17.5. ÍA - Stjarnan
21.5. HK - ÍA

Leikir ÍA í Lengjubikarnum í vetur:
ÍA - Selfoss 3:1
ÍA - Stjarnan 0:2
ÍA - Vestri 4:1
ÍA - Grótta 2:2
ÍA - Keflavík 1:4
Flest mörk: Aron Kristófer Lárusson 2, Gísli Laxdal Unnarsson 2, Sigurður Hrannar Þorsteinsson 2.

Nánar verður fjallað um lið Skagamanna í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert