6. sæti: Það fór allt til fjandans

Erlingur Agnarsson er uppalinn í Víkinni en hann á að …
Erlingur Agnarsson er uppalinn í Víkinni en hann á að baki 68 leiki fyrir félagið í efstu deild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is munu Víkingar enda í sjötta sæti úr­vals­deild­ar karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ar­inn­ar, á kom­andi keppn­is­tíma­bili.

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu fyr­ir um lokaröð liðanna og áttu flestir von á að Víkingar myndu enda um miðja deild. Ef þeir enda í sjötta sæti þá bæta þeir sig umtalsvert eftir að hafa hafnað í tíunda sætinu árið 2020.

„Við ætlum okkur klárlega að gera betur en sjötta sætið en það var svo sem viðbúið að okkur yrði spáð þarna í kringum sjötta til sjöunda sætið og ég held að okkur sé spáð þessum sætum hjá flestum miðlum,“ sagði Erlingur Agnarsson í samtali við mbl.is.

„Stemningin í Víkinni er frábær og það eru allir leikmenn liðsins í standi. Við erum klárir í átökin fram undan og það er mikil tilhlökkun í leikmannahópnum.

Við vorum á fínu róli áður en æfingabannið skall á og það fór aðeins í taugarnar á mönnum enda kórónuveirufaraldurinn búinn að gera okkur lífið leitt undanfarið ár.

Sem betur fer þá var þetta ekki langt stopp og ég get ekki séð að þetta hafi haft einhver neikvæð áhrif á okkur,“ sagði Erlingur.

Arnar Gunnlaugsson er á leið inn í sitt þriðja tímabil …
Arnar Gunnlaugsson er á leið inn í sitt þriðja tímabil sem þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sparsamur á yfirlýsingarnar

Víkingar ætluðu sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en luku keppni í tíunda og þriðja neðsta sæti deildarinnar.

„Síðasta tímabil tók á okkur andlega og þetta var fyrst og fremst ógeðslega pirrandi tímabil. Væntingarnar voru miklar en svo fór allt til fjandans hjá okkur og það var erfitt.

Það er fullt af goðsögnum í þessu liði og auðvitað vill maður sjálfur komast á þann stað sem þeir eru á einn daginn innan félagsins.

Ég vil hafa meiri áhrif inni á vellinum og ég þarf bæði að skora meira og leggja meira upp af mörkum en ég hef verið að gera. Það er eitt af markmiðum mínum fyrir sumarið.“

En hver eru markmið Víkinga í sumar?

 „Við höfum brennt okkur á því áður að fara í einhverjar yfirlýsingar fyrir mót og ég ætla mér ekki að gera það í þetta skiptið.

Við förum í hvern einasta leik til þess að vinna hann og það er fyrst og fremst markmið sumarsins,“ bætti hinn 23 ára gamli Erlingur við.

VÍKINGUR R.
Þjálfari: Arnar Gunnlaugsson.
Árangur 2020: 10. sæti.

Komnir:
Alex Bergmann Arnarsson frá Fram (lánaður í Víking Ó.)
Axel Freyr Harðarson frá Gróttu
Bjarki Björn Gunnarsson frá Haukum (úr láni)
Karl Friðleifur Gunnarsson frá Breiðabliki (lán)
Logi Tómasson frá FH (úr láni)
Pablo Punyed frá KR

Farnir:
Davíð Örn Atlason í Breiðablik
Dofri Snorrason í Fjölni
Emil Andri Auðunsson í ÍR
Kwame Quee í Breiðablik (úr láni)
Ágúst Eðvald Hlynsson í Horsens (Danmörku)
Óttar Magnús Karlsson í Venezia (Ítalíu)

Fimm fyrstu leikir Víkinga:
2.5. Víkingur R. - Keflavík
8.5. ÍA - Víkingur R.
13.5. Stjarnan - Víkingur R.
16.5. Víkingur R. - Breiðablik
21.5. KA - Víkingur R.

Leikir Víkings í Lengjubikarnum í vetur:
Víkingur R. - KR 1:1
Víkingur R. - FH 6:1
Víkingur R. - Kórdrengir 3:1
Víkingur R. - Fram 5:1
Víkingur R. - Þór 5:0
Víkingur R. - Keflavík 3:3
Flest mörk: Helgi Guðjónsson 6, Kristall Máni Ingason 5.

Nánar verður fjallað um lið Víkings í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert