7. sæti: Úr landsliðinu í varamann á Akureyri

Haukur Heiðar Hauksson hefur aðeins leikið fjórtán leiki með KA …
Haukur Heiðar Hauksson hefur aðeins leikið fjórtán leiki með KA síðan hann sneri heim úr atvinnumennsku árið 2018. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is munu KA-menn enda í sjöunda sæti úr­vals­deild­ar karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ar­inn­ar, á kom­andi keppn­is­tíma­bili.

Fimmtán íþróttaf­rétta­menn og leik­lý­send­ur spáðu fyr­ir um lokaröð liðanna og flestir gerðu ráð fyrir því að hlutskipti Akureyrarliðsins yrði að enda rétt fyrir neðan miðja deild en það hafnaði einnig í 7. sætinu á síðasta keppnistímabili.

„Mér finnst þið spá okkur full neðarlega, svona miðað við okkar markmið fyrir sumarið alla vega,“ sagði Haukur Heiðar Hauksson í samtali við mbl.is.

„Við með mjög sterkt lið í ár og höfum fengið sterka leikmenn til liðs við okkur líka. Mórallinn er frábær og við höfum fulla trú á því sjálfir að við getum gert góða hluti í sumar.

Við höfum æft hrikalega vel í vetur og leikmenn eru í mjög góðu líkamlegu standi. Addi [Arnar Grétarsson] er mjög skipulagður þjálfari og við höfum verið að æfa allt upp í tvær æfingar á dag þegar mest liggur við.

Leikmannahópurinn þjappaði sér vel saman fyrir komandi átök í Hveragerði um nýliðna helgi sem var mjög jákvætt. Eftir því sem ég kemst næst eru allir klárir í fyrsta leik gegn HK,“ sagði Haukur.

Æfinga- og keppnisbannið sem sett var á í mars hafði lítil áhrif á Akureyringa.

„Það er alltaf erfitt að þurfa að byrja að hlaupa á fullu þegar maður er búinn að vera æfa af krafti en þetta hefur mismikil áhrif á menn. Sumir finna lítið fyrir þessu á meðan það er erfiðara fyrir aðra en þetta var fljótt að líða.“

Arnar Grétarsson tók við þjálfun KA um mitt síðasta sumar.
Arnar Grétarsson tók við þjálfun KA um mitt síðasta sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fimm aðgerðir á fimm árum

Haukur Heiðar gekk til liðs við KA frá AIK eftir tímabilið 2018 en hefur verið afar óheppinn með meiðsli og því lítið getað spilað með Akureyringum undanfarin tímabil.

„Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu. Ég er búinn að fara í fimm aðgerðir á fimm árum en ég hef reynt að einblína á björtu hliðarnar. Ég er verkjalaus og tilbúinn að spila og svo er það bara bónus ef maður fær tækifæri í byrjunarliðinu.

Ég er klár í slaginn en eins og þetta lítur út núna þá er ég ekki byrjunarliðsmaður. Hlutirnir breytast hratt í fótbolta og mér líður vel eftir þessa síðustu aðgerð sem ég fór í á síðasta ári. Það er leikið þétt og ég er tilbúinn að koma inn í þetta með látum.“

Haukur Heiðar var í íslenska landsliðshópnum sem fór á EM í Frakklandi sumarið 2016 og hann viðurkennir að síðustu ár hafi verið honum erfið.

„Þetta er búið að vera erfitt og fer úr því að vera í AIK, sem er toppklúbbur í Svíþjóð, og íslenska landsliðinu í það að fara heim til Íslands og komast varla í liðið hjá KA.

Það hefur vissulega tekið á en þá er mikilvægt að líta á björtu hliðarnar þótt það sé stundum erfitt,“ bætti Haukur við.

KA
Þjálfari: Arnar Grétarsson.
Árangur 2020: 7. sæti.

Komnir:
Dusan Brkovic frá Diosgyör (Ungverjalandi)
Jonathan Hendrickx frá Lommel (Belgíu)
Sebastiaan Brebels frá Lommel (Belgíu)
Daníel Hafsteinsson frá Helsingborg (Svíþjóð)
Steinþór Már Auðunsson frá Magna
Áki Sölvason frá Dalvík/Reyni (úr láni)

Farnir:
Almarr Ormarsson í Val
Adam Örn Guðmundsson í Fjarðabyggð (lán)
Aron Dagur Birnuson í Grindavík
Guðmundur Steinn Hafsteinsson í Abtswind (Þýskalandi)
Mikkel Qvist í Horsens (Danmörku) (úr láni)

Fimm fyrstu leikir KA-manna:
1.5. HK - KA
7.5. KR - KA
12.5. KA - Leiknir R.
17.5. Keflavík - KA
21.5. KA - Víkingur R.

Leikir KA í Lengjubikarnum í vetur:
KA - Valur 0:1
KA - Víkingur Ó. 5:0
KA - HK 2:1
KA - Afturelding 7:1
KA - Grindavík 1:1
KA - Breiðablik 1:2
Flest mörk: Ásgeir Sigurgeirsson 3, Daníel Hafsteinsson 3.

Nánar verður fjallað um lið KA í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert