Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is munu Fylkismenn enda í áttunda sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á komandi keppnistímabili.
Fimmtán íþróttafréttamenn og leiklýsendur spáðu fyrir um lokaröð liðanna og höfðu mismunandi skoðanir á möguleikum Árbæjarliðsins. Flestir töldu þó að það yrði í neðri hluta deildarinnar og jafnvel að það gæti lent í fallbaráttunni.
„Ég hugsa að þetta sé nokkuð eðlileg spá, svona miðað við það að við erum búnir að missa bæði Valda [Valdimar Þór Ingimundarson] og Óla [Ólaf Inga Skúlason],“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við mbl.is.
„Í grunninn eru allir leikmenn liðsins heilir heilsu og klárir í slaginn. Helgi Valur [Daníelsson] er svona að koma til baka eftir smávægileg veikindi og hann er að koma sér í gang. Nikulás Val [Gunnarsson] hefur aðeins verið að glíma við smávægileg meiðsli en annars eru allir aðrir leikmenn tilbúnir og klárir í slaginn.“
Ungu strákarnir verða í aðalhlutverki í Árbænum í sumar en leikmenn á borð við Unnar Stein Ingvarsson frá Fram og Torfa Tímóteus Gunnarsson frá Fjölni gengu liðs við Fylkismenn eftir síðasta tímabil.
„Það eru margir ungir strákar í leikmannahópnum í ár og stefnan, frá því að nýju þjálfararnir tóku við eftir tímabilið 2019, hefur verið að sú að byggja þetta upp á ungum strákum. Það er ógeðslega gaman að vera með unga og metnaðarfulla stráka í liðinu sem stefna enn lengra.
Þessi unga kynslóð í dag hugsar gríðarlega vel um sjálfa sig og þeir pæla í öllu, hvort sem það er svefn eða mataræði. Þeir eru duglegir að vigta matinn ofan í sig og það er virkilega gaman að vinna með þeim og taka þátt í að búa til umhverfi fyrir þá til þess að bæta sig enn þá frekar sem knattspyrnumenn.“
Ragnar Bragi var gerður að fyrirliða Fylkis fyrir síðasta tímabil en hann er á meðal reynslumestu leikmanna Fylkis með 106 leiki í efstu deild og sjö mörk.
„Ég meiddist í fyrsta leik síðasta sumar en kom inn í liðið í lok júlí þegar liðið var búið að vera á miklu skriði. Ég fékk mjög fína eldskírn sem fyrirliði liðsins seinni hluta síðasta tímabils, en auðvitað er ég mjög spenntur að ná heilu tímabili þar sem kinnbeinsbrot og kórónuveirufaraldur eru ekki að stoppa mann.
Undirbúningstímabilið hefur líka verið gott og maður hefur lært heilan helling undanfarið ár. Ég er fyrst og fremst stoltur að því að hafa fengið fyrirliðabandið hjá uppeldisfélaginu mínu og markmiðið er að koma Fylki á betri stað þannig að við getum farið að gera skemmtilega hluti,“ bætti Ragnar Bragi við í samtali við mbl.is.
FYLKIR
Þjálfarar: Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson.
Árangur 2020: 6. sæti.
Komnir:
Jordan Brown frá Aalen (Þýskalandi)
Dagur Dan Þórhallsson frá Mjøndalen (Noregi)
Torfi Tímoteus Gunnarsson frá Fjölni
Unnar Steinn Ingvarsson frá Fram
Farnir:
Arnór Gauti Ragnarsson í Aftureldingu (lán)
Hákon Ingi Jónsson í ÍA
Kristófer Leví Sigtryggsson í Völsung (lán)
Arnar Darri Pétursson í Stjörnuna
Arnar Sveinn Geirsson í Breiðablik (úr láni)
Sam Hewson í Þrótt R.
Ólafur Ingi Skúlason, hættur
Andrés Már Jóhannesson, hættur
Fimm fyrstu leikir Fylkismanna:
1.5. Fylkir - FH
8.5. HK - Fylkir
12.5. Fylkir - KR
16.5. Leiknir R. - Fylkir
21.5. Fylkir - Keflavík
Leikir Fylkis í Lengjubikarnum í vetur:
Fylkir - ÍBV 3:2
Fylkir - Fjölnir 4:1
Fylkir - Þróttur R. 4:3
Fylkir - Leiknir R. 0:1
Fylkir - Breiðablik 1:2
Fylkir - Stjarnan 2:4
Flest mörk: Þórður Gunnar Hafþórsson 4.
Nánar verður fjallað um lið Fylkis í Morgunblaðinu í fyrramálið.