Félögin sem leika í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, mega taka á móti allt að 200 áhorfendum í fyrstu leikjum tímabilsins.
Samkvæmt núgildandi takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins mega 100 áhorfendur mæta á íþróttaleiki í einu sóttvarnahólfi en félögin mega að hámarki vera með tvö sóttvarnahólf.
Þá þurfa áhorfendur að sitja í númeruðum sætum, vera með andlitsgrímur og skrá sig inn á leikina með nafni, kennitölu og símanúmeri.
Þá teljast börn sem eru fædd 2015 eða síðar ekki með í fjöldatölu en fyrsta umferð Pepsi Max-deildarinnar hefst á föstudaginn kemur með leik Vals og ÍA á Hlíðarenda.