Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is verða Valsmenn Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu annað árið í röð.
Fimmtán íþróttafréttamenn og leiklýsendur spáðu um lokaröð liðanna og flestir reikna með því að Valur verði Íslandsmeistari og hreppi titilinn þar með annað árið í röð og í fjórða sinn á fimm árum.
„Það er bara skemmtilegt að vera spáð Íslandsmeistaratitlinum og gaman að það eru fleiri en við sjálfir sem höfum trú á okkur,“ sagði Rasmus Christiansen í samtali við mbl.is.
„Við misstum Tryggva Hrafn í meiðsli fyrir einhverjum vikum síðan og það var auðvitað mjög leiðinlegt að missa hann út svona rétt fyrir mót. Það er óvíst hvenær hann verður klár en vonandi getur hann hjálpað okkur eitthvað á seinni hluta tímabilsins.
Að honum undanskildum eru allir leikmenn heilir heilsu og klárir í slaginn. Við erum allir mjög spenntir að hefja leik og menn eru búnir að bíða ansi lengi núna eftir fyrsta leik. Það er langt síðan menn voru orðnir andlega tilbúnir í þetta og við erum fullir tilhlökkunar,“ sagði Rasmus.
Valsmenn voru á leið í undanúrslit deildabikarsins þegar æfinga-og keppnisbann var sett hér á landi í mars.
„Ég held að þessi pása sem kom í mars hafi ekki truflað menn neitt sérstaklega. Maður er við öllu búinn, sérstaklega eftir síðasta tímabil, þar sem það var alltaf verið að stoppa og byrja aftur.
Auðvitað var þetta pirrandi en eins og Íslendingurinn segir þá voru þetta bara leiðinlegar fréttir og áfram gakk. Þetta hafði engin áhrif á okkur þannig lagað og við erum allir í mjög góðu líkamlegu standi.“
Valsmenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar og spá flestir því að þeir verji titil sinn í sumar.
„Við lítum ekki á þetta tímabil eins og við séum að fara verja einhvern bikar því það eru oftast stærstu mistökin sem maður gerir. Þá ertu strax kominn með annan vinkil á það hvernig maður nálgast leikina.
Það byrja allir með núll stig og við leggjum þetta tímabil upp eins og við séum að fara sækja titilinn, ekki verja hann. Það sem við gerðum í fyrra hefur ekkert með það að gera sem við gerum í ár. Þetta er nýtt mót, með nýja leikmenn og ný lið og við höfum allt að sanna í ár.“
Rasmus hefur verið í mun stærra hlutverki hjá Valsmönnum eftir að Heimir Guðjónsson tók við þjálfun liðsins eftir tímabilið 2019 en þar áður stýrði Ólafur Jóhannesson liðinu frá 2014 til 2019.
„Óli fílaði mig alltaf en á sama tíma gaf Heimir mér ákveðið tækifæri sem ég nýtti vel. Þú ert aldrei öruggur með neitt í fótbolta og ef ég ætla mér að slaka eitthvað á þá eru alltaf aðrir menn tilbúnir að koma inn og taka við keflinu.
Stundum gengur manni vel og stundum illa, það er hluti af fótboltanum, en frá því að Heimir tók við hefur mér gengið vel og ég get í raun ekki útskýrt það neitt frekar,“ bætti Rasmus við.
VALUR
Þjálfari: Heimir Guðjónsson.
Árangur 2020: Íslandsmeistari.
Komnir:
Christian Köhler frá Esbjerg (Danmörku)
Almarr Ormarsson frá KA
Johannes Vall frá Ljungskile (Svíþjóð)
Arnór Smárason frá Lillestrøm (Noregi)
Tryggvi Hrafn Haraldsson frá Lillestrøm (Noregi)
Kári Daníel Alexandersson frá Njarðvík (úr láni)
Kristófer Jónsson frá Haukum
Farnir:
Eiður Aron Sigurbjörnsson í ÍBV
Einar Karl Ingvarsson í Stjörnuna
Ólafur Karl Finsen í Stjörnuna (var í láni hjá FH)
Lasse Petry í HB Køge (Danmörku)
Valgeir Lunddal Friðriksson í Häcken (Svíþjóð)
Aron Bjarnason í Újpest (Ungverjalandi) (úr láni)
Kasper Högh í Randers (Danmörku) (úr láni)
Fimm fyrstu leikir Vals:
30.4. Valur - ÍA
9.5. FH - Valur
13.5. Valur - HK
17.5. KR - Valur
21.5. Valur - Leiknir R.
Leikir Vals í Lengjubikarnum í vetur:
Valur - KA 1:0
Valur - Grindavík 8:1
Valur - Víkingur Ó. 3:0
Valur - HK 2:2
Valur - Afturelding 3:0
Valur - KR 3:3
Flest mörk: Patrick Pedersen 4, Sigurður Egill Lárusson 4.
Nánar verður fjallað um lið Vals í Morgunblaðinu í fyrramálið.