Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is mun FH enda í fjórða sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á komandi keppnistímabili.
Fimmtán íþróttafréttamenn og leiklýsendur spáðu um lokaröð liðanna og flestir gerðu ráð fyrir því að FH færi halloka í baráttunni um efstu sætin að þessu sinni. FH endaði þó í öðru sæti í fyrra og hefur aðeins einu sinni frá 2002 endað neðar en í þriðja sæti deildarinnar.
„Þetta er nokkuð eðlilegt myndi ég halda og í takt við gengi okkar á undirbúningstímabilinu,“ sagði sóknarmaðurinn Steven Lennon í samtali við mbl.is en hann er orðinn þriðja markahæsti leikmaður FH í deildinni frá upphafi.
„Að sjálfsögðu ætlum við okkur að gera betur en þetta enda er FH félag sem ætlar sér að vera í titilbaráttu, alltaf. Það setur enginn stefnuna á fjórða sætið og við ætlum að blanda okkur í baráttu um Evrópusæti hið minnsta.
Það voru einhver smávægileg meiðsli í leikmannahópnum á undirbúningstímabilinu en leikmenn eins og Eggert Gunnþór [Jónsson] eru að koma til baka sem eru mjög jákvæðar fréttir fyrir okkar. Eftir fyrstu tvo til þrjá leikina reikna ég með því að það verði allir orðnir heilir og klárir í slaginn.
Við erum með frábæran leikmannahóp í ár og ef allir haldast heilir í gegnum tímabilið eigum við að geta gert alvöru atlögu að titlinum,“ bætti Lennon við.
Skoski framherjinn átti frábært síðasta tímabil, skoraði 17 mörk í 18 leikjum, og var á góðri leið með að bæta markamet efstu deildar þegar ákveðið var að hætta keppni á Íslandsmótinu vegna kórónuveirufaraldursins.
„Það er langt síðan síðasta leiktíð kláraðist og núna tekur við nýtt tímabil. Sem framherji þá viltu að sjálfsögðu alltaf skora mörk fyrir félagið þitt og það skiptir öllu máli að byrja vel.
Við þurfum að koma stigum á töfluna í þessum fyrstu leikjum því maður veit aldrei hvenær og hvort öllu verði skellt í lás að nýju.“
Logi Ólafsson tók við þjálfun FH á ný í desember eftir að Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum en Logi og Eiður tóku við FH um mitt síðasta sumar eftir að Ólafur Helgi Kristjánsson fór til Danmerkur.
„Logi og Eiður komu inn af miklum krafti síðasta sumar og leikmennirnir brugðust mjög vel við þeim breytingum. Það voru mikil vonbrigði að horfa á eftir Eiði en Logi kom aftur inn og það hefur gengið vel.
Þessar breytingar tóku ekkert á leikmennina þannig, við erum bara fullir tilhlökkunar að hefja leik og markmið er alltaf að fara í hvern einasta leik til að vinna hann, sama hver er að þjálfa liðið.“
FH varð síðast Íslandsmeistari sumarið 2016 en Lennon hefur verið í herbúðum FH frá árinu 2014.
„Það er orðið ansi langt síðan við unnum eitthvað síðast þó við höfum vissulega verið nálægt því eins og í bikarúrslitaleiknum 2019.
Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfan mig en ég er orðinn ansi hungraður í að vinna eitthvað enda er farið að síga á seinni hluta ferilsins hjá mér.
Við höfum styrkt okkur fyrir tímabilið með leikmönnum eins og Matta Vill og Ágústi Hlynssyni og vonandi koma þeir inn í þetta með hugarfarið sem við þurfum á að halda,“ sagði Lennon.
FH
Þjálfari: Logi Ólafsson.
Árangur 2020: 2. sæti.
Komnir:
Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (Danmörku) (lán)
Teitur Magnússon frá OB (Danmörku)
Matthías Vilhjálmsson frá Vålerenga (Noregi)
Oliver Heiðarsson frá Þrótti R.
Vuk Oskar Dimitrijevic frá Leikni R.
Farnir:
Baldur Sigurðsson í Fjölni
Egill Darri Makan Þorvaldsson í Kórdrengi
Logi Tómasson í Víking R. (úr láni)
Ólafur Karl Finsen í Val (úr láni)
Daníel Hafsteinsson í Helsingborg (Svíþjóð) (úr láni)
Atli Guðnason, hættur
Fimm fyrstu leikir FH:
1.5. Fylkir - FH
9.5. FH - Valur
13.5. FH - ÍA
17.5. HK - FH
22.5. FH - KR
Leikir FH í Lengjubikarnum í vetur:
FH - Kórdrengir 2:1
FH - Víkingur R. 1:6
FH - Fram 2:2
FH - Þór 4:0
FH - KR 1:1
Flest mörk: Vuk Oskar Dimitrijevic 3.
Nánar verður fjallað um lið FH í Morgunblaðinu í fyrramálið.