Gary Martin rekinn vegna agabrots

Gary Martin hefur yfirgefið Eyjamenn.
Gary Martin hefur yfirgefið Eyjamenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnudeild ÍBV hefur rift samningi sínum við enska framherjann Gary Martin. Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag en samkvæmt tilkynningu Eyjamanna var um agabrot að ræða.

Ákvörðun félagsins um riftun samnings má rekja til agabrots leikmannsins sem ekki verður samræmt skuldbindingum hans við félagið,“ segir í fréttatilkynningu Eyjamanna.

Martin, sem er þrítugur, framlengdi samning sinn við Eyjamenn út tímabilið 2023 í mars á þessu ári.

Framherjinn kom fyrst hingað til lands árið 2010 þegar hann gekk til liðs við ÍA á Akranesi en hann hefur einnig leikið með KR, Víkingi í Reykjavík og Val hér á landi.

Hann hefur skorað 87 mörk í 152 deildarleikjum hér á landi, þar af 57 mörk í 108 leikjum í efstu deild.

Hann skoraði ellefu mörk í nítján leikjum fyrir ÍBV þegar liðið endaði í 6. sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert