Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir mun leika með Selfossi í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, í sumar.
Vísir greinir frá en Hólmfríður tilkynnti í síðasta mánuði að knattspyrnuskórnir væru komnir á hilluna eftir farsælan feril.
Hólmfríður, sem er 36 ára gömul, hefur leikið með KR, ÍBV Val og Selfossi hér á landi og þá hefur hún einnig leikið með Valdsnes í Noregi, Fortuna Hjørring í Danmörku, Kristianstad í Svíþjóð og Philadelphia Independence í Bandaríkjunum á atvinnumannsferli sínum.
Hún er næstmarkahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 37 mörk í 113 A-landsleikjum. Aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað meira fyrir landsliðið eða 79 mörk.
Hólmfríður á að baki 156 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hún hefur skorað 121 mark en hún hefur leikið með Selfossi frá árinu 2019.