Markvörður KA handleggsbrotnaði

Kristijan Jajalo í leik með KA síðasta haust.
Kristijan Jajalo í leik með KA síðasta haust. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Markvörðurinn Kristijan Jajalo verður ekki með KA í fyrstu leikjunum á Íslandsmótinu í knattspyrnu en hann handleggsbrotnaði á æfingu í gær. 

Þetta staðfesti Arnar Grétarsson þjálfari KA við fotbolti.net í dag. Steinþór Már Auðunsson, sem hefur varið mark Magna í 1. deildinni undanfarin þrjú ár, gekk til liðs við KA í vetur og verður í marki KA í byrjun mótsins en KA sækir HK heim í fyrstu umferðinni á laugardaginn. Steinþór er þrítugur og hefur spilað 172 leiki í 1. og 2. deild fyrir Magna, Þór, Dalvík/Reyni, Völsung og KA.

Jajalo er 28 ára og hefur spilað 66 úrvalsdeildarleiki hér á landi með KA og Grindavík.

Um leið kom fram að belgíski miðjumaðurinn Sebastiaan Brebels sem kom til KA frá Lommel í vetur hefði einnig meiðst á æfingu KA-manna í gær, orðið fyrir ökklameiðslum, en óvíst væri hversu lengi hann yrði frá keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert