Enski knattspyrnumaðurinn Gary Martin segir að ástæða þess að hann hafi verið rekinn frá ÍBV sé sú að hann hafi tekið nektarmynd af samherja sínum í búningsklefa liðsins eftir bikarleik á dögunum.
Umræddur leikmaður hefur kært Martin til lögreglu og hann kveðst væntanlega þurfa að sækja rétt sinn gagnvart honum og gagnvart ÍBV vegna brottrekstursins.
Martin sendi mbl.is yfirlýsinguna og hún er sem hér segir:
Í tilefni af fréttatilkynningu IBV vil ég taka eftirfarandi fram:
Ég hef lagt mig 100% fram fyrir félagið frá því ég kom og ávallt gert mitt besta. Það var gagnkvæm ánægja með samstarfið og m.a. þess vegna framlengdum við samning minn til ársloka 2022.
Við erum 15-20 leikmenn með lokaða spjallrás þar sem við sendum Snapchat, myndir og skilaboð milli okkar. Oftar en ekki hef ég fengið minn skammt af stríðni og myndum og tekið því misvel eins og gengur. Í síðustu viku tók ég mynd inni í klefa eftir sigurleik af leikmanni nýkomnum úr sturtu og sendi með athugasemd sem átti að vera fyndin. Þó að mörgum þætti sendingin fyndin þá þótti leikmanninum sem myndin var af það ekki. Hann kærði mig til lögreglunnar og kvartaði til félagsins sem bregst við með þeim hætti sem fréttatilkynning þeirra sýnir.
Ég hef margoft reynt að ná til leikmannsins en hann vill ekki hitta mig. Hef ég sent honum skilaboð þar sem ég bið hann auðmjúklega afsökunar á því að hafa sært hann en hann svarar ekki. Ég hef farið heim til hans en hann vildi ekki tala við mig.
Þetta er ekki fyrsta myndin á spjallrás okkar sem sýnir einhvern beran. Það hefur t.a.m. komið mynd þar af mér allsberum í vetur sem ég gerði engar athugasemdir við. Þetta og fleira eru margir leikmenn tilbúnir að staðfesta. En ég virði skoðanir leikmannsins og var alls ekki að reyna að særa hann. Ég var að reyna að vera fyndinn. Og nú er búið að kæra mig til lögreglunnar og rifta samningi mínum við ÍBV sem þýðir að ég er atvinnulaus. Mér er gert að yfirgefa íbúðina mína 1. maí sem er eftir þrjá daga.
Bæði ég og lögmaður minn erum búnir að reyna að sætta þetta mál en án árangurs. Hann hefur sagt mér að það sé líklega best fyrir alla aðila að leysa þetta mál hjá lögreglu með sáttameðferð því það sé þungt fyrir alla ef þetta fer fyrir dóm. En stjórn ÍBV hefur hafnað sáttum og ég þarf því líklega að sækja minn rétt gagnvart ÍBV og verja mig hjá lögreglu.
Ég vil að lokum þakka öllu fólkinu hér í Eyjum fyrir frábæran tíma og viðkynningu. Einnig þjálfurum, leikmönnum og forsvarsmönnum ÍBV sem ég óska alls hins besta í framtíðinni.