HK, sem er nýliði í 1. deild kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili, hefur fengið góðan liðsauka en Lára Einarsdóttir úr Þór/KA er gengin til liðs við Kópavogsliðið.
Lára, sem er 25 ára gömul og leikur ýmist sem varnar- eða miðjumaður, er næstleikjahæsti leikmaður Akureyrarliðsins í úrvalsdeildinni frá upphafi með 156 leiki en hún varð Íslandsmeistari með liðinu bæði 2012 og 2017 og spilaði með meistaraflokki þess frá fimmtán ára aldri. Hún lék 19 leiki með yngri landsliðum Íslands.
HK varð í öðru sæti 2. deildar í fyrra, á sínu fyrsta ári með sjálfstæðan meistaraflokk, og hefur styrkt sig nokkuð síðustu daga. Bandaríski leikmaðurinn Danielle Marcano er á leið til Kópavogsliðsins og þá er Mist Funadóttir komin þangað í láni frá Þrótti í Reykjavík en hún spilaði fimm úrvalsdeildarleiki á síðasta tímabili.