„Þessi spá kemur mér ekkert sérstaklega á óvart enda hefur okkur verið spáð þessum neðstu sætum á fleiri vígstöðvum,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is á kynningarfundi úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.
Skagamönnum er spáð ellefta og næst neðsta sæti deildarinnar í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni, sem þýðir fall úr efstu deild.
„Á vissan hátt er þetta skiljanlegt því undirbúningstímabilið hjá okkur var ekki það besta og ekki eins og við vildum hafa það ef svo má segja. Á margan hátt var það samt jákvætt því það fengu margir ungir og efnilegir strákar tækifæri með liðinu. Þeir fengu aðeins smjörþefinn af meistaraflokksfótbolta og það nýttist okkur því vel á margan hátt.
Ég hefði samt sem áður viljað hafa fleiri leikmenn, sem hægt væri að flokka sem líklega byrjunarliðsmenn, klára á undirbúningstímabilinu en því miður gekk það ekki eftir vegna meiðsla og annarra þátta. Spá er bara spá og eins og ég hef sagt áður þá er markmiðið í sumar að halda áfram að bæta liðið og gera betur en síðasta sumar,“ sagði Jóhannes en Skagamenn höfnuðu í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 21 stig.
Jóhannes Karl hefur stýrt Skagamönnum frá árinu 2018 og er með skýr markmið fyrir félagið.
„Það er bara þannig að við gerum kröfur til okkar sjálfra, bæði ég, þjálfarateymið og leikmennirnir sjálfir. Við ætlum okkur að standa okkur vel í sumar og við höfum styrkt hópinn þótt við höfum auðvitað misst menn líka frá því í fyrra. Á sama tíma höldum við áfram að vinna í okkar leikstíl og það voru ungir strákar sem fengu mikilvægar mínútur með okkur í fyrra og þeirra reynslu mun reynast okkur mikilvæg í sumar.
Við viljum gefa ungu strákunum okkar tækifæri til þess að spila í efstu deild og það hefur sýnt sig og sannað að þegar það gengur vel þá fá þeir alla jafna tækifæri í atvinnumennsku eins og í tilfelli Bjarka Steins Bjarkasonar og Stefáns Teits Þórðarsonar. Þetta er eitthvað sem við höfum unnið markvisst að, samhliða því að gera liðið að stöðugu efstu deildar liði. Vonandi getum við svo gert atlögu að efri hluta deildarinnar í komandi framtíð.“
Skagamenn breyttu um leikstíl síðasta sumar þar sem markmiðið var að halda boltanum meira innan liðsins en sumarið 2019 treysti liðið mikið langar spyrnur fram völlinn.
„Við viljum spila áhugaverðan og skemmtilegan fótbolta. Við viljum vera beinskeyttir og skora mörk. Okkar aðalmarkmið er að verða betri í öllum þáttum leiksins og tímabilið í fyrra var betri en sumarið 2019 að því leitinu til að við vorum mun meira með boltann. Við skoruðum mun fleiri mörk en á sama tíma fengum við líka mun fleiri mörk á okkur en tímabilið 2019. Við erum hægt og rólega að bæta okkur í öllum þáttum leiksins og búa til heilsteyptan leikstíl sem hentar okkur vel.
Það er mikið búið að tala um þá leikmenn sem við höfum misst enda allt frábærir fótboltamenn en á sama tíma var Steinar Þorsteinsson mikið meiddur allt síðasta tímabil. Viktor Jónsson meiddist líka illa og auðvitað söknuðum við þeirra í fyrra, ásamt Arnari Má Guðjónssyni. Þeir koma allir inn í þetta tímabil af krafti og þá eru Gísli Laxdal og Brynjar Snær báðir reynslunni ríkari,“ bætti Jóhannes við í samtali við mbl.is.