„Spá er bara spá og ég hef hvorki yfirsýn yfir það hversu oft hún hefur ræst né hversu oft Breiðabliki hefur verið spáð titlinum,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is á kynningarfundi úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.
Breiðabliki er spáð efsta sæti deildarinnar í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni en Valsmönnum, sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar, er spáð öðru sæti deildarinnar.
„Ég hef engar tölfræðiupplýsingar um áreiðanleika þessara spáa en það virðist vera sem svo að margir hafi trú á okkur og við getum lítið annað gert en að fagna því. Við berum virðingu fyrir því líka og munum að sjálfsögðu reyna að standa undir henni. Ég held að þetta muni hafa góð áhrif á leikmannahópinn enda er mikill metnaður í hópnum og menn hafa talað þannig undanfarnar vikur að þeir ætli sér stóra hluti í sumar.
Svona spádómar eiga ekki að gera neitt annað en að gefa mönnum aukið sjálfstraust, frekar en að draga þá niður og þyngja þá með einhverri aukapressu. Við fáum ekkert fyrir það að vera spáð efsta sætinu og við þurfum fyrst og fremst að standa okkur vel á vellinum í sumar,“ bætti Óskar við en Breiðablik hafnaði í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 31 stig, 13 stigum minna en topplið Vals.
Þjálfarinn er ánægður með undirbúningstímabilið og gengi liðsins í vetur.
„Ég hef lagt mikla áherslu á að æfa vel, mikið og æfa af krafti. Við höfum reynt að hafa umgjörðina í kringum allar æfingar eins góða og kostur er. Ég vil að menn mæti á æfingar og taki þær alvarlega og mér finnst það hafa gengið vel.
Mesta áherslan hefur verið á það en svo höfum við auðvitað líka verið að vinna í ýmsum smáatriðum, bæði sóknar- og varnarlega. Stærsti einstaki veigamesti þátturinn í vetur, hefur verið frábær umgjörð í kringum allar æfingar sem við trúum að muni skila sér inn í leik liðsins í sumar.“
Þjálfarinn segist hafa lært mikið af síðasta tímabili og sé reynslunni ríkari í ár.
„Við lentum í vandræðum vegna þess að við vorum kannski helst til þrjóskir. Við trúðum kannski of mikið á eina leið og eigum við ekki að vona að við séum búnir að læra af reynslunni? Ég er þá að tala um sjálfan mig, liðið og alla í kringum liðið. Ég lærði heilan helling á síðustu leiktíð sem er eðlilegt enda mitt fyrsta heila tímabil í efstu deild.
Á hverjum einsta tímapunkti þarftu að vera tilbúinn að endurskoða það sem þú ert að gera eða reyna að kalla fram. Ef þú heldur að þú hafir fundið upp hina einu fullkomnu leið til þess að spila fótbolta á fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari 2018 á Seltjarnarnesi þá held ég að þú siglir hratt í strand. Maður hefur auðvitað einhverjar grunnhugmyndir og gildi en síðan þarf reynslan að sveigja ákveðna þætti og beygja, eftir því sem maður lærir og lifir.
Ég kom aðeins blindur inn í þetta á mínu fyrsta tímabili. Blindur á það hvar við stæðum, blindur á hvort þessi hugmyndafræði sem við erum með myndi ganga í efstu deild og til þess að berjast um titla. Hvernig hin liðin væru og hinir þjálfararnir væru. Að einhverju leyti kom ýmislegt á óvart og að öðru leyti var annað sem kom mér ekki á óvart. Núna er ég búinn að vera ár í þessari deild og ég hef lært margt um bæði sjálfan mig og aðra og vonandi skilar það sér.“
Breiðablik mætir KR á Kópavogsvelli í fyrstu umferð Íslandsmótsins en liðin mættust þrívegis á síðustu leiktíð og í öll skiptin hafði KR betur.
„Það verður frábært að mæta KR í fyrsta leik. Þeir eru með frábært lið, frábæran þjálfara og mjög vel drillaðir. Þeir eru góðir í því sem þeir gera, þeir hafa verið stöðugir undanfarin ár og hafa verið eitt besta lið landsins.
Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur til þess að sjá hvar við stöndum því það er erfitt að átta sig á því hvar maður stendur nákvæmlega eftir langt undirbúningstímabil. Ef menn vilja virkilega komast að því á hvaða stað við erum í dag þá er fátt betra en að byrja á KR-ingum,“ bætti Óskar við í samtali við mbl.is.