Knattspyrnumaðurinn Gary Martin hefur skrifað undir tveggja ára samning við Selfoss en þetta staðfesti félagið í fréttatilkynningu sem það sendi frá sér í dag.
Framherjinn, sem er þrítugur að árum, kemur til félagsins frá ÍBV en Eyjamenn riftu samningi sínum við leikmanninn í vikunni vegna agabrots.
Hann hefur leikið fyrir bæði ÍA, KR, Víking úr Reykjavík, Val og ÍBV hér á landi en hann á að baki 108 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 57 mörk.
„Ég er mjög spenntur fyrir þessum nýja kafla á mínum ferli og fullur tilhlökkunar,“ sagði Martin í tilefni undirskriftarinnar.
„Ég þekki Dean (þjálfara liðsins) og ég veit að hann mun ná því besta út úr mér. Það eru spennandi tímar í fótboltanum á Selfossi, liðið er nýkomið upp og er að stefna í rétta átt.
Mér finnst Selfoss liðið sjálft spennandi. Leikmennirnir í liðinu eru hæfileikaríkir og það eru margir ungir leikmenn í liðinu sem vilja ná langt,” bætti Martin við.