Hefði aldrei átt að fara út af

Viktor Jónsson skallar að marki Vals í kvöld.
Viktor Jónsson skallar að marki Vals í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var sáttur með fyrri hálfleik síns liðs á móti Val í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik vann Valur að lokum 2:0-sigur. 

„Ég var í fyrsta lagi mjög ánægður með fyrri hálfleikinn. Við náðum að pressa Valsarana á köflum og þvinga þá í mistök. Við sköpuðum ágætistækifæri og hefðum getað verið á undan þeim að skora sem hefði skipt gríðarlega miklu máli. 

Við komum þeim á óvart með því að pressa á þá en Heimir fékk tíma til að stilla sína menn af í hálfleik. Við vorum svo of passífir þegar við komum inn í seinni hálfleik. Þá gáfum við eftir svæði á miðjunni sem við gerðum ekki í fyrri hálfleik,“ sagði Jóhannes við mbl.is. 

Ísak Snær Þorvaldsson fékk tvö gul spjöld og þar með rautt snemma í seinni hálfleik í stöðunni 1:0. Hann segir sína menn ekki hafa misst hausinn eftir fyrra mark Vals. „Alls ekki. Ég sá að það var varla snerting á Pedersen þegar hann fær fyrra spjaldið sitt Hann hefði aldrei átt að fá það spjald og því aldrei átt að fara út af. Við vissum að það yrði erfitt að spila á móti Val því þeir eru með hörkugóða leikmenn. Þú þarft að mæta þeim af hörku en mér fannst við aldrei missa hausinn.

Ísak er hörkuíþróttamaður og mikill keppnismaður. Hann fékk ósanngjarnt fyrra gult spjald, hann er fylginn sér og fer í hökutæklingu við Hauk Pál þar sem hann vinnur boltann. Ég skil ekki af hverju Ísak Snær fékk ekki að klára leikinn.“

Jóhannes fékk gult spjald fyrir mótmæli í kjölfar rauða spjaldsins, en hann vildi einnig hrósa dómurum leiksins. 

„Ég var ósáttur við að hann hafi endað með rautt spjald. Mér fannst dómarinn dæma þetta virkilega vel. Tríóið og fjórði dómarinn voru flottir en ég var ósáttur við fyrra gula spjaldið við Ísak og mér fannst dómarinn vera fljótur að henda upp gulum spjöldum á okkur. Birkir Már fer í Árna Snæ þegar hann er búinn að grípa boltann. Það var klárt gult en Birkir fékk að skokka í rólegheitum til baka og ekki einu sinni tiltal,“ sagði Jóhannes Karl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert