Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segist búast við hörkukeppni í C-riðli undankeppni HM en að Ísland muni stefna að því vinna hann.
„Við erum náttúrlega í hörku riðli. Hollendingar eru Evrópumeistarar og lentu í öðru sæti á HM þannig að það er hörkulið. Tékkarnir eru hörkulið líka. Þær töpuðu í vító gegn Sviss í umspilinu um að komast á EM. Þetta eru tvö sterk lið,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is í dag.
Hollenska liðið hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms sem knattspyrnustórveldi í kvennaboltanum en Tékkland hefur einnig verið í stöðugri framför undanfarin ár og mun reynast íslenska liðinu erfiður ljár í þúfu.
„Að sjálfsögðu eru Tékkarnir erfiðir. Við gerðum jafntefli við þær hérna heima í síðustu undankeppni fyrir HM sem olli því að Ísland komst ekki í umspil um að komast á HM. Það er engin spurning að Tékkarnir eru í framför og hafa verið að bæta sig mikið. Það munaði litlu að þær kæmust á EM,“ sagði hann.
Þrátt fyrir erfiðan riðil, sem samanstendur af Hvíta-Rússlandi og Kýpur að auki, er Þorsteinn bjartsýnn. „Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta verði hörkuriðill en að mörgu leyti skemmtilegur líka.
Við ætlum að sjálfsögðu að berjast um að vinna riðilinn, það er markmiðið en við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að eiga okkar bestu leiki til þess að ná því,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.