Rétt í þessu dróst íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu í C-riðil með Evrópumeisturum Hollands í undankeppni HM. Lokakeppni HM fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi árið 2023.
Holland eru ríkjandi Evrópumeistarar eftir að hafa unnið EM sem gestgjafar árið 2017, auk þess sem liðið náði í silfur á síðasta HM.
Í C-riðlinum eru einnig Tékkland, Hvíta-Rússland og Kýpur.
C-riðillinn í heild sinni:
Holland
Ísland
Tékkland
Hvíta-Rússland
Kýpur
Undankeppnin fyrir HM hefst í september á þessu ári og lýkur ári síðar.
Íslenska liðið hefur komist á fjögur Evrópumót í röð en á enn eftir að hljóta eldskírn sína á HM og mun nú freista þess að ná því í fyrsta skipti.
Sigurvegarar riðlanna níu fara beint á HM og liðin níu sem enda í öðru sæti sinna riðla fara í umspil í október árið 2022 þar sem leikið verður um tvö laus sæti í lokakeppninni, ásamt einu sæti í sérstakri umspilskeppni þar sem þjóðir frá öllum heimsálfum taka þátt og keppa um þrjú laus sæti í lokakeppninni.
Bandaríkin eru ríkjandi heimsmeistarar eftir að hafa lagt Holland 2:0 í úrslitaleiknum á HM í Frakklandi árið 2019.